Flug til Tenerife 2021

Flug til Tenerife 2021

Fjölmargir hafa verið að velta fyrir sér hvaða flugfélög komi til með að fljúga milli Íslands og Tenerife eftir allar breytingarnar sem hafa orðið á ferðaiðnaðinum síðastliðið ár. Hér eru þeir rekstraraðilar sem vitað er til að muni fljúga til Tenerife á þessu ári. Dæmi um verð á flugi til Tenerife 2021 miðast við bókunarvélar þessara aðila þann 2. maí.

Ferðaskrifstofurnar Heimsferðir, Plúsferðir, VITA, Sumarferðir, og Úrval Útsýn bjóða allar upp á pakkaferðir til Tenerife í sumar og næsta vetur. Verðin eru fjölbreytt og fara almennt eftir verðflokki þess hótels sem valið er. Flestar ferðaskrifstofurnar bjóða einnig stök flugsæti og við kíktum aðeins betur á verðin á þeim.

Nýlega bárust þær fréttir að Icelandair ætli að hefja beint flug til Tenerife í fyrsta sinn, en áður hefur félagið tekið þátt í leiguflugi fyrir aðra. Fyrsta áætlunarflug Icelandair til Tenerife fór í loftið 1. maí 2021 og flugfélagið ætlar sér að fljúga þangað vikulega, frá og með maí. Einnig hefur frést að nýja flugfélagið Play ætli að fljúga til Tenerife og við fylgjumst spennt með fréttum frá þeim.

Dæmi um hvað kostar að fljúga til Tenerife

Samkvæmt bókunarkerfi Icelandair verður flogið frá Keflavíkurflugvelli og Suður-Tenerife (TFS) á miðvikudögum og laugardögum, að því er virðist út árið. Mögulega verður ferðum fjölgað þegar dregur úr ferðatakmörkunum. Economy Standard-verð er um 55.000 fram og til baka í sumar en aðeins hærra næsta vetur. Það er þó með fyrirvara um breytingar á verði í bókunarkerfi. Einnig er hægt að fá ódýrari miða þannig að flug báðar leiðir getur farið undir 50.000.

Heimsferðir bjóða bæði flugsæti og pakkaferðir til Tenerife. Verð á flugsæti miðað við bókunarvél þeirra núna er um 37.000 í júní, 60.000 í ágúst, 70-90.000 í haust, og um 145.000 fyrir jólin, en það getur breyst þegar nær dregur. Í þessum verðdæmum er eingöngu innifalinn handfarangur. Verð fyrir 20 kg. tösku er 2.900 á mann fyrir hvert flug. Stök flug til Tenerife eru í boði frá júní 2021 hjá Heimsferðum.

Plúsferðir, Sumarferðir, og Úrval útsýn bjóða einnig upp á flugsæti og pakkaferðir. Verð á flugsætum hjá þeim eru nánast eins, munar yfirleitt bara 900 krónum. Miðað við bókunarvélar Plúsferða, Sumarferða, og Úrval útsýn í maí er flug í júní-ágúst um 63.000-74.000 á mann, í október 96.000, í nóvember og desember 48.000, en 68.900 hjá Sumarferðum. Eini munurinn á milli ferðaskrifstofanna er að það eru engin flugsæti í boði hjá Úrval útsýn um jólin eða í janúar 2022. Flugsæti hjá Plúsferðum er um 64.000 um jólin og 68.000 í janúar 2022. Þessi verð geta breyst með litlum fyrirvara. Eingöngu er miðað við handfarangur en verð fyrir 20 kg. tösku er 3.700 á mann fyrir hvert flug hjá Plúsferðum og Úrval útsýn. Ekki er tekið fram gjald fyrir tösku hjá Sumarferðum.

Flugtími milli Íslands og Tenerife er rétt rúmar 5 klst.

Sjá einnig langtímaleiga og hvar er best að búa á Tenerife.

Reglur fyrir farþega vegna Covid-19

Hér er hægt að skoða reglur um QR-kóða og bólusetningu, fyrir fólk sem er að fara til Tenerife og Kanaríeyja.