Ferðast með ungbörn

Ferðast með ungbörn

Þurrmjólk, bleyjur og aðrar ungbarnavörur

Margir foreldrar hafa lent í vandræðum með að finna þurrmjólk. Sum apótek á ferðamannasvæðinu selja þurrmjólkina frá Nan (Nestle). Nan fæst líka í matvöruverslun Alcampo og öðrum matvöruverslunum. Alcampo er líka með mjög gott úrval af ungbarnavörum. Þar fæst meðal annars Nan pro, lífræn Hipp þurrmjólk, og fleiri gerðir. Þurrmjólk er leches infantiles á spænsku og bleyjur pañales.

Þarna er líka listi yfir bleyjur og stærðir; Pañales talla (stærð) 1-7. Athugið að Pampers-bleyjur heita Dodot á Spáni. Stærri matvöruverslanir eru oft með bleyjur undir merki verslunarinnar, eins og Mercadona, SuperDino, Lidl og fleiri.

Það er gott vöruúrval fyrir ungbörn í Alcampo

Leigja barnastóla, kerrur o.fl.

Það getur verið þægilegt að fá vana manneskju til að skutla sér á milli staða og enn betra ef hún talar íslensku. Rósa Tenerife býður upp á skutlþjónustu og bílstólaleigu. Þið finnið hana á Facebook.

Það er hægt að leigja kerrur, barnabílstóla, burðarpoka, ferðarúm, ömmustóla og fleiri barnagræjur hjá tækjaleigunni Travel4Baby (hét áður Hire4Baby)og fá afhent á flugvellinum eða hótelinu. Í lok ferðarinnar eru leigðir munir síðan einfaldlega sóttir til ykkar eftir samkomulagi. Það er bæði hægt að greiða fyrir þjónustuna fyrirfram eða borga bílstjóranum við afhendingu. Það er boðið upp á að leigja samdægurs en þá þarf að hringja í símanúmerið sem er gefið upp á heimasíðunni þeirra. Travel4Baby er bæði á Tenerife og Kanarí. Margar íslenskar fjölskyldur hafa nýtt sér báðar þessar þjónustur og mæla 100% með þeim. 

Berfætt börn á strönd
Tenerife hentar tásum af öllum stærðum

Brjóstagjöf

Mæður með börn á brjósti ættu að gefa oftar, þar sem börnin verða þyrst í hitanum. Samkvæmt brjóstagjafaráðgjafa er það útbreiddur misskilningur að það þurfi að gefa ungbörnum vatn samhliða brjóstagjöf en það er ekki rétt.