Loro Parque

Hvernig er best að komast þangað?

Loro Parque dýragarðurinn er staðsettur norðanmegin á Tenerife, í bænum Puerto de la Cruz. Það eru rútuferðir frá ferðamannasvæðinu í sér vagni fyrir garðinn. En þið verðið með bílaleigubíl tekur sirka klukkustund að aka á milli.

Opnunartími er frá 9.30 – 17.30, alla daga vikunnar.

Hvernig dýr eru í Loro Parque?

Loro Parque er 50 ára á þessu ári. Garðurinn hefur nokkrum sinnum verið valinn besti dýragarður í heimi.

Gott er að mæta snemma í garðinn til að sjá sem flestar sýningar, heilsa upp á górilluna, skoða krókódílinn og fiskana. Sýningin með sæljónunum er sýning sem enginn ætti að missa af, sérstaklega börnin, og það sama má segja um páfagaukana. Mörg önnur framandi dýr búa í dýragarðinum, og líka alls konar fuglar og fiðrildi.

Í dýragarðinum eru alls konar svæði sem er spennandi að skoða. Á heimasíðu Loro Parque er hægt að sjá yfirlit yfir ljónagarðinn, Zen garðinn, Kinderlandia, Pueblo Thai, Planet Penguin, Naturavisión og margt fleira.

Loro Parque er vottaður af samtökum sem fylgjast með að meðferð dýranna sé mannúðleg.

Hvað kostar í Loro Parque?

Miðaverð fyrir fullorðna og börn sem eru orðin 11 ára eru 38 evrur, og 26 evrur fyrir 6-10 ára börn. Það er frítt fyrir börn sem eru ekki orðin 6 ára. Það eru nokkrar gerðir af miðum í boði. (Íbúar Kanaríeyja fá 50% afslátt.)

Það er best að kaupa miða fyrirfram en það er líka miðasala við innganginn. Þar er hægt að borga með pening og kortum, en það eru líka hraðbankar á staðnum. Þegar miðar eru keyptir á netinu þarf að mæta með þá útprentaða.

Það er hægt að kaupa miða fyrirfram á heimasíðu Loro Parque, ásamt miðum í Loro Parque-strætóinn. Verð með miða í strætóinn er 50,50 evrur fyrir fullorðna og 34 evrur fyrir 6-11 ára börn. Loro-Parque-strætóinn fer frá ferðamannasvæðinu á suðurhlutanum (Adeje og Arona). Hann kemur í garðinn klukkan 10 og leggur aftur af stað suður klukkan 17.

Það eru nokkrar aðrar gerðir af miðum til fyrir Loro Parque. Meðal annars miði með hádegismat, eða Premium, Diamond, og Discovery.

Siam Park og Loro Parque eru tvíburagarðar. Það þýðir að það er sami eigandi. Ef þið ætlið í báða garðana þá er í boði að kaupa „tvíburamiða“ (twin ticket), með afslætti. Tvíburamiði kostar 66 evrur fyrir fullorðna og 45,50 evrur fyrir 6-11 ára börn. Miðar sem eru keyptir á heimasíðu garðsins gilda í 1 ár frá kaupdegi.

Um garðinn

Þegar þið komið í Loro Parque fáið þið kort af garðinum við innganginn. Þá er hægt að velja hvaða sýningum eða svæðum þið viljið byrja á. Nokkrar sýningar eru í gangi í einu og það er tímatafla við hvert svæði. Það borgar sig að mæta snemma á sýningarnar til að fá góð sæti. Ef það eru margir gestir að koma á sama tíma, er líka hægt að fara öfugan hring um garðinn.

Munið eftir sólarvörn og hatti ef það er sól, annars er auðvelt að brenna. Hér og þar í garðinum er skjól fyrir sólinni og sum sýningarsvæðin eru inni í kaldara lofti. Það eru veitingastaðir í nokkrum verðflokkum víða um svæðið og auðvelt að finna stað til að kaupa vatn eða fara á klósettið.

Til að halda afmælisveislu í garðinum, er best að hafa samband með góðum fyrirvara.

Það er hægt að fá lánaðar barnakerrur, hjólastóla og rafdrifna hjólastóla. En það þarf að panta með 72 klst fyrirvara.

Það er frítt wi-fi í garðinum. Reykingasvæði eru á sérstökum stöðum.

Athugið að opnunartímar og verð eru með fyrirvara um breytingar.

Sædýrasafnið á Kanarí

Athugið að til 2020 var líka hægt að kaupa „þríburamiða“ fyrir þessa tvo garða, plús Poema del Mar sædýrasafnið á Gran Canaria. Það tilboð virðist ekki enn vera byrjað aftur, en sædýrasafnið á Kanarí er opið. Það er hægt að gera sér dagsferð þangað með ferjunni sem gengur á milli eyjanna. (Munið bara að taka með ykkur vegabréfin.)