Skógareldar á Tenerife

Skógareldar á Tenerife

Skógareldar sem hafa geysað í kringum Arico á Tenerife síðan á fimmtudag náðu inn í El Teide-þjóðgarðinn fyrir helgi. Mesta hættan er núna liðin hjá þótt eldarnir hafi ekki verið slökktir og vonandi helst það óbreytt, þrátt fyrir að nú hafi verið gefin út appelsínugul stormviðvörun fyrir Kanaríeyjar. Skógareldarnir eru enn á stigi 2 og næstu klukkutímana mun koma í ljós hvort hægt verði að lækka hættustigið í 1.

Móðurtré í hættu

Eldarnir náðu ekki strax inn í skóginn í þjóðgarðinum heldur voru í jaðri hans, en þeir náðu inn í fornan furuskóg El Teide um helgina. Staðfest hefur verið að furutré sem brunnu voru svokölluð „móðurtré“ en það eru elstu og hæstu trén.

Upptökin

Skógareldarnir áttu upptök sín í Chajaña-gilinu (Arico) og dreifðust hratt út. Til að byrja með voru eldarnir á jörðu niðri, sem gerir þá viðráðanlegri en ef eldarnir væru í trjátoppum. Á 2 sólarhringum stækkaði svæðið sem eldarnir náðu yfir úr 240 í rúmlega 3.000 hektara svæði, eða yfir 42 km svæði. Það sem hindraði slökkvistarf helst var mishæðótt landslagið í fjallshlíðunum sem gerði þyrlum erfiðara fyrir að slökkva elda; og mikill vindur og öldugangur, svo sjóflugvélar sem notaðar eru í slökkvistarfið áttu í erfiðleikum með að fylla vatnstanka sína.

Slökkvilið að störfum á Arico-svæðinu (Mynd: El Diario)

Annað sem yfirvöld á Tenerife segja vera hagstætt er að eldarnir komu upp í maí, þannig að gróðurinn er ekki jafn þurr og hann hefði verið hefðu eldarnir kviknað að sumri til.

Engir íbúar hafa þurft að yfirgefa heimili sín að því er við best vitum.

Myndband sem sýnir slökkvistarf á Tenerife þann 21. maí
(Mynd: El Diario)