Eyjan

Paradísareyjan Tenerife hefur laðað að ferðamenn síðan 1890. Hlýtt veðurfar allt árið um kring gerir það að verkum að eyjan er sérstaklega eftirsótt yfir vetrartímann, hvort sem fólk vill slaka á í sólinni, versla, stunda útivist eða fara á tapasnámskeið. Fjölbreytt náttúran gerir eyjuna að draumi ljósmyndarans og útivistarfólks. Tenerife er mjög barnvænn staður svo allir aldurshópar ættu að finna eitthvað við hæfi. 
Oftast er talað um Tenerife sem tvo hluta; norður og suður. Aðal ferðamannasvæðin (Adeje og Arona) eru á suðurhlutanum og þar er jafnframt hlýrra á veturna og fleiri sólardagar. Munurinn á veðri milli norður og suður sést greinilega á gróðrinum, þar sem suðurhlutinn er þurr en náttúran blómstrar fyrir norðan. Skýringin á þessum mun eru fjöllin á miðri eyjunni og þá sérstaklega El Teide, sem er þriðja stærsta eldfjall heims. Báðir eyjarhlutar hafa sína kosti og vonandi náið þið að sjá sem mest af eyjunni. Það tekur innan við klukkustund að keyra frá amerísku ströndinni og norður þannig að flestir ættu að hafa tíma til að skoða sig um og kynnast því sem Tenerife hefur upp á að bjóða.

Tenerife á sér langa og áhugaverða sögu þar sem við koma m.a. Kristófer Kólumbus, karnival og frumbyggjarnir Guanches, sem voru hávaxnir og ljósir yfirlitum. Hver veit, kannski voru þeir forfeður Íslendinga og einhvern veginn lentum við hin á rangri eyju. En það er ekki of seint að bæta úr því! 

Tenerife

Kanaríeyjar tilheyra Spáni. Tenerife er stærst eyjanna 8, sem eru rétt fyrir utan strendur Vestur-Afríku. Tungumálið er spænska (kanareysk spænska) og gjaldmiðillinn evra (€). Tenerife er 2.034 km² (Ísland er 103.000 km²). Tenerifebúar voru 966.354 í febrúar 2023, þar af búa um 205.000 í höfuðborginni Santa Cruz. Árlega koma um 5-6 milljón ferðamenn til Tenerife. Hér er spænska mállýskan útskýrð betur.

Kanaríeyjarnar eru 7 talsins og Tenerife er stærst

Aðal ferðamannasvæðið er á suður-Tenerife. Við mælum með að fara í skoðunarferðir um eyjuna, hvort sem farið er á eigin vegum eða með íslensku fararstjórunum sem gjörþekkja eyjuna. Það er meiri gróðursæld á norðurhluta Tenerife en eins og sést á myndinni efst eru fleiri græn svæði þar. Græna svæðið á norðaustur hlutanum (efst til hægri) er Anaga-fjallgarðurinn. Á miðri eynni er El Teide-eldfjallið og -þjóðgarðurinn.

Eyjan er lítil, það tekur ekki nema um klukkustund að aka frá amerísku ströndinni til Puerto de la Cruz og um 45 mín. til höfuðborgarinnar Santa Cruz. Að komast inn og út úr borginni getur verið flókið svo kynnið ykkur vel leiðina (næst borginni), númer fráreina o.þ.h. ef þið eruð ekki með GPS tæki.

Best er að kaupa vatn í stórum brúsum. Kranavatn er yfirleitt ekki drukkið nema gegnum þar til gerða síu en það er allt í lagi að bursta tennur með því. Það er líka í góðu lagi að drekka klaka í drykkjum á veitingastöðum. Rafmagnið er eins og á Íslandi og því er hægt að stinga síma og tölvu beint í samband.

Litlar eðlur eru í flestum görðum. Þær eru hræddar við fólk en halda flugum og skordýrum í burtu. Það er líka hægt að gefa þeim að borða.

Siam Park
Karnivalsafnið
Corpus Christi