Agatha Christie Festival

Agatha Christie Festival

Agatha Christie hreifst mjög af Puerto de la Cruz á Norður-Tenerife, þegar hún kom þangað árið 1927. Sagt er að hún hafi komið þangað á flótta undan blaðamönnum sem sátu um hana eftir að hún hafði látið sig hverfa í 11 daga. Og eins og Agöthu Christie sæmir, flúði hún fjölmiðla á gufuskipi. Hún kom til Tenerife ásamt 12 ára dóttur sinni og ritara sínum. Þær gistu á hótelinu Gran Hotel Taoro, sem er núna búið að loka.

Ritstörf á Tenerife

Agatha Christie

Bókina „The Man from the Sea“ skrifaði Agatha Christie í bænum Puerto de la Cruz. Villa La Paz, sem hún skrifar um, stendur enn og er í dag friðað.

Vitað er að Agatha Christie fékk hugmyndina að bók sinni „The Mysterious Mr Quin“ í Orkídeugarðinum í Puerto de la Cruz, Jardin de Orquideas de Sitio Litre. Garðurinn er frá byrjun 18. aldar og var áður í einkaeigu. Þangað kom fræga fólkið í garðveislur, sem var í fríi á Tenerife.

Sýningin

Annað hvert ár er haldin sýning til heiðurs Agöthu Christie í Puerto de la Cruz. Sýningin var síðast haldin 13.-19. nóvember 2023 og verður næst 2025. Sýningin er á ensku og spænsku. Nánari upplýsingar eru á heimasíðu hátíðarinnar.

Agöthu Christie-tröppurnar

Tilkynning um hátíð Agöthu Christie á Tenerife
Tilkynnt um hátíðina 2021. Takið eftir tröppunum.

Við stuttan göngustíg í Puerto de la Cruz eru litríkar tröppur sem kallast einfaldlega Agatha Christie-tröppurnar. Þær eru málaðar í ýmsum litum; hver og ein táknar einn af bókarkjölum bóka Agöthu Christie. Tröppurnar eru við endann á göngustíg sem kallast Camino de San Amaro. Það tekur ekki nema um 2 mínútur að ganga að tröppunum ef gengið er frá kaffihúsinu Café Mimi. En það er líka hægt að komast að þeim hinum megin frá. Best er að finna leiðina á Google maps eða öðru korta-appi.

Stígurinn er rétt hjá veginum að Playa de Martiánez ströndinni og miðbæ Puerto de la Cruz.

Puerto de la Cruz er ein stærsta borg Tenerife og þar er margt að sjá. Þar eru gamlar byggingar í ekta spænskum stíl, skemmtilegt mannlíf og góðir veitingastaðir. Þar eru einnig fjölmörg hótel og gististaðir af öllum gerðum. Hérna geturðu lesið meira um Puerto de la Cruz.