Jólin á Tenerife

Flestir veitingastaðir á Tenerife eru opnir um jól og áramót. Það er best að panta borð með góðum fyrirvara fyrir 24. og 25. desember, og líka um áramótin. Það er einfalt að panta borð í gegnum síðu TripAdvisor en svo er líka hægt að hafa samband beint við veitingastaðina eða hótel sem gist er á.

Aðfangadagskvöld er Nochebuena á spænsku og jóladagur er día de Navidad. Aðal jólahátíð Tenerifebúa er 6. janúar (þrettándinn) og þá fá krakkarnir pakka. Íbúar Kanaríeyja eru kaþólskrar trúar eins og meirihluti Spánverja og 6. janúar er dagur vitringanna (Día de los Reyes). Daginn eftir byrja svo útsölurnar, 7. janúar.

Hefðbundinn jólamatur á Spáni er lambakjöt og eftirmaturinn er turrón, núggat-konfekt sem er meðal annars búið til úr sírópi og hnetum. Það er í boði á mörgum veitingastöðum og það er líka hægt að kaupa það í alls konar útgáfum í matvöruverslunum.

(Mynd Hótel Bótanico)

Sífellt fleiri kjósa að verja jólunum í sól og sumaryl fjarri stressinu á Íslandi, enda er fátt jafn endurnærandi og frí á paradísareyjunni Tenerife. Líklega verða um 1% Íslendinga á Tenerife þessi jól eins og síðustu ár.

Á meðan sumir vilja slaka á við sundlaugarbakkann eða á ströndinni, vilja aðrir njóta þess að ganga um höfuðborgina Santa Cruz eða gamla bæinn í Los Cristianos. Ýmislegt verður um að vera á Íslendingabarnum yfir jól og áramót, hér eru nánari upplýsingar um hann. Annar íslenskur staður er Bambú bar & bistro.

Jólastemning í Siam Park