Bílaleigur

Flestar af stærstu bílaleigunum eru með nokkur útibú á Kanaríeyjum. Það er hægt að fá bílaleigubíl afhentan á flugvellinum (Tenerife Sur – Reina Sofia) eða hvar og hvenær sem ykkur hentar.
Það er mjög þægilegt að keyra á Tenerife. Vegirnir eru almennt góðir og bílstjórar eru tillitssamir og virða rétt annarra, líka gangandi og hjólandi vegfarenda.
Til að leita að afgreiðslustað bílaleigu nálægt ykkar gististað, er einfaldast að nota Google Maps.
Hagstæðar bílaleigur
Oftast er mælt með að leigja bíl hjá Cicar. Sú bílaleiga hefur verið í uppáhaldi hjá Íslendingum ár eftir ár, bæði út af verðum og þjónustu. Autoreisen hafa líka verið með hagstæð verð.
Íslenskt ökuskírteini
Munið að taka ökuskírteini með ykkur. Það er ekki nóg að hafa rafrænt ökuskírteini, sérstaklega ef löggan stoppar ykkur.
Leiga og afhending á bílaleigubíl
Passið vel upp á að yfirfara bílaleigubílinn þegar þið takið við honum. Ef þið sjáið rispu, beyglu eða eitthvað annað athugavert, látið þá starfsmann bílaleigunnar skrifa það í athugasemdir á samninginn.
Gott að taka líka myndir, því þá eruð þið með tímasetta sönnun fyrir því að rispa eða beygla var ekki af ykkar völdum. Ef þetta er ekki gert, getið þið lent í vandræðum þegar þið skilið bílnum. Jafnvel verið krafin um bætur.
Leigja rútu eða mini-bus
Fyrir hópa sem eru að ferðast saman og vilja fara í einkaferð í rútu, getur verið sniðugt að leigja rútu með bílstjóra. Sun Transfers hafa fengið góð meðmæli. Þar er boðið upp á leigubíla og rútur af öllum gerðum, með bílstjóra. Hér er hægt að fá nánari upplýsingar um verð og gerðir ökutækja.
Mikilvægt varðandi umferðina
Hámarkshraði á hraðbrautunum er oftast 120 km.
Reglur í hringtorgum eru ekki eins og á Íslandi því á Spáni er það YTRI hringur sem á réttinn út. Þetta hefur valdið ófáum árekstrum og því mikilvægt að muna.
Athugið að á Tenerife er bannað að aka í sandölum og skóm sem eru opnir að aftan.
