Candelaria og basilíkan

Candelaria og basilíkan

Á norðurhluta Tenerife, um 20 mínútna akstur frá höfuðborginni Santa Cruz, er lítill bær sem heitir Candelaria. Basilíkan þar er upplifun út af fyrir sig, Basílica de Nuestra Señora de Candelaria. Hún er rómversk-kaþólsk og fyrsti helgistaðurinn á Kanaríeyjum sem er tileinkaður Maríu mey. Árið 1959 var basilíkan vígð, en hún var byggð á rústum eldri kirkju sem brann 1789. Bygging nýju basilíkunnar tók um áratug. Hún hafði tafist um mörg ár, meðal annars vegna fjármálahrunsins 1931, spænska borgarastríðsins (1936-1939), og seinni heimstyrjaldarinnar (1939-1945). Fyrir fólk sem er að leita að róandi umhverfi þá er þetta rétti staðurinn. Oft er messa í gangi á daginn en gestir geta gengið um og skoðað á meðan. Það er bannað að taka myndir inni þar sem flass getur skemmt listaverkin.

Basilíkan í Candelaria er miðstöð pílagrímsferða á Kanaríeyjum og einn helsti viðkomustaður pílagríma Spánar. Hún rúmar 5.000 manns og um 2,5 milljón gesta heimsækja hana árlega.

Basilíkan í Candelaria

Verndardýrlingur Kanaríeyja

Sagan segir að árið 1390 hafi geitahirðar í hópi frumbyggja sótt í einveruna í Candelaria. Eitt kvöldið tóku tveir þeirra eftir því að nokkrar geitur hlýddu ekki kallinu. Við nánari athugun kom í ljós að þær höfðu fundið styttu af Meyjunni frá Candelaria á kletti í fjöruborðinu. Síðar var því lýst yfir að hún væri aðalverndardýrlingur Kanaríeyja. Farið var með styttuna í hellinn Chinguaro sem var höll Guanche-konungs Güímar. Seinna færðu frumbyggjarnir hana í Achbinico-hellinn. Þar stendur núna lítil kapella við hellinn. Frumbyggjarnir tengdu styttuna fyrst við gyðju sína Chaxiraxi sem er móðir guðanna. Þegar Spánverjar yfirtóku eyjuna staðfestu þeir að þetta væri stytta af Maríu mey og stuttu seinna var kapellan við hellinn byggð. Spánarkonungur gaf helgistaðnum í Candelaria titilinn „konunglegur“ við lok 16. aldar. Það var í fyrsta sinn sem sá titill var veittur á Kanaríeyjum. Styttan af Maríu mey er inni í basilíkunni. Fólk með mismunandi trúarskoðanir heimsækir basilíkuna. Skikkjan sem styttan er íklædd er til dæmis gjöf frá hindúum á Tenerife.

Torgið í Candelaria

Torgið fyrir framan basilíkuna, Plaza de la Patrona de Canarias, er eitt af þremur aðaltorgum Tenerife. Það stendur þar sem gamla kirkjan og klaustur stóðu áður. Árið 1659 var byggður kastali við sjóinn til að verja þau fyrir innrásum sjóræningja. Hann eyðilagðist að mestu í óveðri árið 1826.

Hátíðin Virgen de Candelaria, eða Meyjan frá Candelaria, er haldin 15. ágúst ár hvert. Hátíðin er í anda frumbyggjanna og íbúar Tenerife koma gjarnan til bæjarins daginn áður og eyða nóttinni á stígunum sem liggja að bænum. 2. febrúar er kyndilmessa og þá koma pílagrímar til bæjarins vegna hátíðarinnar Fiesta de la Candelaria. Fyrsta daginn er skrúðganga í kringum basilíkuna með kyndla. Á öðrum degi er messa, þar sem biskup Tenerife predikar. Aðrar hátíðir sem haldnar eru á torginu eru meðal annars hátíð til heiðurs hindúum í maí, og viðburðir sem tengjast karnivalinu í febrúar og mars.

Konungar frumbyggjanna

Við torgið hjá basilíkunni eru um þriggja metra háar styttur af níu konungum frumbyggja Tenerife, Guanches. Frumbyggjarnir voru ljósir yfirlitum og hávaxnir en eitthvað er á reiki hver uppruni þeirra er. Stytturnar af konungunum eru eftir listamanninn José Abad og hafa staðið vörð við torgið frá 1993. Candelaria er lítill bær en það er mjög gaman að heimsækja hann. Meðal annars eru kaffihús, barir og ísbúðir í göngugötunni. Mataráhugafólk ætti að kíkja í búðina Casa de las Especias Melisa og kaupa sér krydd, en sem dæmi um verð þá er 200 gr poki á um 3 evrur.

Stytta af konungi frumbyggja Tenerife

Styttur af konungunum eru:

  • Acaimo: Konungur Tacoronte
  • Adjona: Konungur Abona
  • Añaterve: Konungur Güímar
  • Bencomo: Konungur Taoro
  • Beneharo: Konungur Anaga
  • Pelicar: Konungur Adeje
  • Pelinor: Konungur Icode
  • Romen: Konungur Daute
  • Tegueste: Konungur Tegueste
Kort af Tenerife
Candelaria er rétt fyrir neðan höfuðborgina Santa Cruz

(Hluti af sögu basilíkunnar og styttunnar er þýdd af vef Wikipedia.)