Matvara

Maturinn á Tenerife er almennt mjög góður og við mælum með að prófa hefðbundna spænska rétti eins og paellu, tapas, og sósurnar mojo rojo og mojo verde. Og kanareyskan mat eins og papas arrugadas (hrukkóttar kartöflur), gofio, ropa vieja, og almogrote, mauk sem er gert úr geitaosti og borðað með tuc-kexi eða brauði. 

Í matvöruverslunum er mikið úrval af ostum og við hvetjum fólk til að prófa hinar ýmsu gerðir af geitaosti. Og í stað þess að nota ávaxtasultu með, eins og við Íslendingar gerum vanalega, þá er gott að nota hunang

Við bíðum spennt eftir að íslensku búðirnar fari að flytja inn dverg-bananana frá Tenerife.

Á ferðamannasvæðinu er ódýrast að versla í Mercadona en fyrir norðan eru það Alcampo og Mercadona. Aðrar matvöruverslanir eru t.d. Carrefour, Lidl og El Corte Inglés. Matvara er mjög ódýr miðað við Ísland en minni munur getur verið á innfluttum vörum eins og kexi og morgunkorni. Þess ber þó að geta að laun eru mikið lægri á Kanaríeyjum og Spáni en á Íslandi og það hefur áhrif á verðlagið, auk þess sem fyrirtækjaskattur er lægri.

Fyrir þau ykkar sem verðið í íbúð og eldið sjálf þá er hægt að áætla matarkostnaðinn á síðunni verðdæmi-matur og fleira. Grænmeti og ávextir eru ótrúlega fersk og ekkert í líkingu við það sem fæst á Íslandi, enda frábær aðstaða til ræktunar á eyjunni. Bananar eru ræktaðir á Tenerife, þeir eru litlir en bragðgóðir. Fólk þarf stundum að vigta grænmeti og ávexti inni í grænmetisdeildinni en stundum er það gert við afgreiðslukassana.

Í þessum búðum er hagstætt að versla í matinn. Mercadona er víða að finna á eyjunni en Alcampo er í stærri verslunarmiðstöðvum (Santa Cruz/La Laguna, Los Realejos og La Orotava.
Það getur komið sér vel að hafa orðabók með í búðina.

Best er að kaupa vatn í 6-8 lítra brúsum og nota það til að fylla á litlar flöskur áður en haldið er út í daginn. Þannig sparast bæði evrur og plast. Fontvella-vatnið bragðast líkt og það íslenska. Munið að skoða klórinnihald þegar vatnsflöskur eru keyptar. Kranavatn er yfirleitt ekki drukkið nema gegnum þar til gerða síu en það er allt í lagi að bursta tennur með því. Klakar í drykkjum á veitingastöðum eru líka í lagi.

Það er vel hægt að fá valkvíða yfir 30 gerðum af brauði og það getur tekið tíma að finna einfaldar vörur eins og smjör og ost sem líkist því sem fólk er vant. Það er mikið úrval af lífrænum (egológicos), glútenlausum (sin gluten) og laktósafríum (sin lactosa) mat.

Í spænsku búðunum er yfirleitt ekkert stress. Ef fólk á eftir að setja mikið í poka (bolsa) þegar komið er að næstu manneskju, þá fær það einfaldlega aðstoð án þess að biðja um það.