Ferðin

Flugtíminn er 5-6 tímar frá Keflavík til Tenerife Sur, sem er flugvöllurinn sem er nær ferðamannasvæðinu.
Á veturna er sami tími og á Íslandi, en á sumrin munar klukkustund (kl. 10 á Íslandi er kl. 11 á Tenerife).

Best er að fljúga í þægilegum fötum sem eru ekki of heit þegar komið er í 25° hita eða meira. Til dæmis er gott að vera í stuttermabol undir peysu eða úlpu, til að kafna ekki úr hita á leiðinni á hótelið. Það getur líka komið sér vel að pakka léttum skóm ofarlega í töskuna og skipta um skó áður en farið er út úr flugstöðinni á Tenerife. Það er allt í lagi að vera í strigaskóm í hitanum.

Flugvöllurinn Tenerife Sur (TFS) er fyrir sunnan hjá ferðamannasvæðinu. Þaðan er ca. 20 mín. akstur að Amerísku ströndinni, Playa de las Américas, en um 45 mín. með rútunni.
Auðvelt er að keyra á hraðbrautum og mikil tillitssemi sýnd.

Rafmagnið er eins og á Íslandi og því hægt að stinga síma og tölvu beint í samband.

Gott að skoða staðsetningu gististaðar á Google maps, finna nálæga matvöruverslun, veitingastaði, apótek og annað sem þið teljið ykkur þurfa eftir að þið komið út. Nánari útskýring á því er í flipanum „Google maps.“