Veitingastaðir

Maturinn á Tenerife er almennt mjög góður og það er gott úrval af ferskum fiski og grænmeti. Við mælum með að prófa kanareyska rétti eða láta þjónana mæla með einhverju. Spænski rétturinn paella er til í nokkrum útgáfum og svo er alveg ómissandi að prófa tapas, hvort sem það er þegar farið er út að borða eða sem snarl á bæjarröltinu. Flestir staðir bjóða upp á grænmetisrétti og sumir vegan en það getur borgað sig að skoða staðina fyrst á Tripadvisor þar sem einhverjir staðir halda að nóg sé að bjóða upp á salat með tómat og gúrku og kalla það vegan- eða grænmetisrétt. En það eru sem betur fer fáar undantekningar.

Það er allt í lagi að drekka drykki með klökum. Hefðbundnir drykkir eru í boði, allt frá vatni upp í eitthvað sterkara, þar af vín sem er gert á Tenerife. Spænski drykkurinn sangría er úr rauðvíni og ávöxtum, og minnir svolítið á kalt jólaglögg. Staðirnir sem eru nefndir hér eru flestir á aðal ferðamannasvæðinu. Það er búið að yfirfara listann, til að sjá hvaða staðir eru enn til og eru enn góðir eftir 2020. Nýjustu upplýsingar og umsagnir um staðina sjást til dæmis á Tripadvisor og Google maps.

Þjórfé

Svipað og á Íslandi þá er ekki regla að gefa þjórfé en flest fólk gerir það ef það er ánægt með þjónustuna og matinn. Sumir borga því ekkert aukalega meðan aðrir námunda upp í næstu 5-10 evrur eða bæta 5-10% við.

Limoncello veitingastaðurinn er við Torviscas-ströndina í Adeje. Staðurinn sérhæfir sig í sjávarréttum en býður meðal annars upp á steikur, pasta, pizzur og risotto. Staðurinn hefur líka fengið frábæra dóma 2022. Á kvöldin er hægt að njóta þess að horfa á sólsetrið meðan borðað er.

Chill Out við göngugötuna við Vistas-ströndina er einn af uppáhaldsstöðum Íslendinga. Þarna fæst tapas, ítalskur matur og fleira spennandi. Yngsta manneskjan sem hefur mælt með þessum stað var 6 ára. Chill Out er alveg upp við göngin yfir í Los Cristianos. Það er allt gott þarna og þjónustan frábær. Staðurinn fær stóran plús fyrir vandaðan barnamatseðil.

Tapas-staðurinn La Casita De Taby er á Amerísku ströndinni, á Avenida V Centenario 2 (efst í götunni sem endar hjá Monkey Beach Club). La Casita De Taby býður líka upp á grænmetisrétti og vegan.

Í pýramídanum á móti gosbrunninum á Laugaveginum er Hard Rock. Það borgar sig að panta borð þar til að þurfa ekki að bíða lengi. Það er líka hægt að sitja úti og fylgjast með mannlífinu á Laugaveginum. Hard Rock er þekkt fyrir að vera mjög lifandi staður, mikið fjör og hátt stillt tónlist.

Það er æðislegur sushi staður ofarlega á Amerísku ströndinni, Taberna Sushi Amore, í næstu götu við Laugaveginn, Av. Antonio Dominguez.

Nokkrum metrum frá Taberna Sushi Amore er ítalskur staður sem margir mæla með, ARDI. ARDI er í 6. sæti yfir bestu veitingastaðina á Arona-svæðinu, samkvæmt Tripadvisor, með 5 stjörnur.

Slow Boat er kínverskur veitingastaður sem margir mæla með. Hann er á Adeje svæðinu. Þar er líka boðið upp á grænmetisrétti. Staðurinn fær 4,5 stjörnur á Tripadvisor.

Tony Roma’s steikhús er vel þekkt fyrir frábærar nautasteikur og rif. Staðurinn er á Amerísku ströndinni, Fañabe við Costa Adeje og í Siam Mall.

Indverski staðurinn Bombay Babu á Fañabe svæðinu er mjög góður. Veitingastaðurinn er á tveimur öðrum stöðum; Callao Salvaje (aðeins lengra en Fañabe), og La Tejita (rétt hjá flugvellinum og El Médano).

Þess má geta að rétt hjá Bombay Babu í Callao Salvaje er ekta franskt bakarí, Au Petit Plaisir Français.

Einn af uppáhaldsstöðum Íslendinga er ítalski staðurinn Bianco. Hann er á efri hæðinni á Safari-verslunarmiðstöðinni á „Laugaveginum,“ (beint á móti Hard Rock). Mismunandi sögur fara af því hvort maturinn sé alltaf frábær eða það sé löng bið eftir matnum.

Imperial Tai-pan er veitingastaður sem er í eigu sömu aðila og Bianco. Boðið er upp á austurlenskan mat og sushi. Þetta var 10. besti veitingastaðurinn á Amerísku ströndinni fyrir kófið, samkvæmt Tripadvisor, og hefur nýlega fengið góð meðmæli.

Það getur verið áskorun að finna góða hamborgara á eyjunni en það er hægt að fá mjög góða hamborgara á Chill Out (nema á kvöldin, nema það hafi breyst). Oftast eru hamborgarar úr eins konar kjötfarsi svo það er alveg markaður fyrir útibú frá einum af íslensku stöðunum hér!

Fínni veitingastaðir

Fyrir þau sem vilja fara fínt út að borða er úr nógu að velja. Meðal annars Arte del Gusto og Casa Tagoro, báðir í Los Cristianos, og El Molino Blanco á Amerísku ströndinni.

Aðrir miðlungsdýrir veitingastaðir sem henta líka fjölskyldum með börn eru til dæmis asíski staðurinn Spice Garden í La Caleta, Lagarto Brasserie, Lucky 7’s grillmatur og hamborgarar í Fañabe, og pizzastaðurinn Zena sem er rétt hjá Aqualand.

Að finna besta veitingastaðinn

Vegna fjölda veitingastaða er góð hugmynd að leita á Tripadvisor. Þar eru ítarlegir leitarmöguleikar og til dæmis hægt að leita að vegan-stað á Amerísku ströndinni, pizzastað á Adeje-svæðinu eða Michelin-veitingastað. Það er líka hægt að leita út frá stærð hóps, verðlagi eða dagsetningu. Leitarniðurstöður koma í númeraröð eftir meðmælum gesta. Hér er hægt að skoða veitingastaði á Tenerife, á síðu Tripadvisor. Vinstra megin á síðunni eru svo valmöguleikar þar sem er hægt að þrengja leitina.

Flestir veitingastaðir eru opnir um jólin. Hér er hægt að lesa meira um hvernig er að vera á Tenerife um jólin.