Siam Park

Siam Park

Það er engin tilviljun að Siam Park vatnsrennibrautagarðurinn er hér fyrstur á listanum, enda hefur hann verið valinn sá besti í heimi undanfarin ár. Siam Park er líka á frábærum stað, rétt fyrir ofan hraðbrautina hjá Amerísku ströndinni.

Ein af barnabrautunum

Við mælum með að mæta snemma til að ná að fara í flestar brautirnar (og líka til að ná örugglega geymsluskáp). Það er hægt að leigja handklæði á staðnum og þarna eru nokkrir veitingastaðir. Börn undir 16 ára verða að vera í fylgd með fullorðnum. Það er frábær öryggisgæsla í garðinum og laugunum.

Best er að kaupa miða fyrirfram en það er líka miðasala við innganginn. Þar eru bæði hraðbankar og posar. Þegar miðar eru keyptir á netinu þarf að mæta með þá útprentaða.

Hvað kostar í Siam Park?

Venjulegt verð fyrir fullorðna eru 40 evrur, fyrir 3-11 ára börn 28 evrur, frítt fyrir börn sem eru 2 ára og yngri. Núna eru nokkrar gerðir af miðum í boði: VIP, Premium, og Kampavínsklúbburinn Champagne Club.

Tvíburamiðar

Ef þið ætlið líka í Loro Parque þá er hægt að kaupa „tvíburamiða“ (twin ticket) í báða garðana með afslættiTvíburamiði kostar 70 evrur fyrir fullorðna og 49 evrur fyrir 3-11 ára börn. Miðar sem eru keyptir á heimasíðu garðsins gilda í 1 ár frá kaupdegi. Þegar annar miðinn hefur verið notaður þarf að nota hinn innan 6 mánaða.

Athugið að opnunartímar og verð eru með fyrirvara um breytingar.

Það var hægt að kaupa „þríburamiða“ fyrir þessa tvo garða plús Poema del Mar sædýrasafnið á Gran Canaria en þeir hafa ekki verið í boði eftir 2020. Við fylgjumst með hvort það breytist eftir að lífið fer í eðlilegt horf. Það er hægt að gera sér dagsferð í garðinn á Kanarí með ferjunni sem gengur á milli eyjanna. (Munið bara að taka með ykkur vegabréfin.)

Það er hægt að panta þessa miða fyrir fram á heimasíðu garðanna, ásamt miðum í Siam Park-strætóinn.

Kort af Siam Park

Þarna er frábært svæði sem er lokað af fyrir yngstu börnin, The Lost City (týnda borgin). Eldri börn fá ekki að fara inn á það, enda er nóg af öðrum brautum fyrir þau. Athugið að það eru skilti við allar brautir sem sýna aldurs- og/eða hæðartakmörk. Börn undir 16 ára verða að vera í fylgd með fullorðnum. Það er líka tekið fram ef brautirnar henta ekki fólki með hjarta- eða bakvandamál, til að gæta fyllsta öryggis.

Öldulaugin

Á svæðinu hjá veitingastöðunum er risastór öldulaug. Því nær sem þú ferð upptökunum á öldunum, því meiri líkur eru á að þær nái að fella þig. Það eru sundlaugaverðir í og við öldulaugina, eins og við öll svæðin.

Öldulaugin

Jafnvel smábörn geta leikið sér í öldulauginni næst „ströndinni“ (í umsjón fullorðinna auðvitað). Þar eru líka sólbekkir þar sem er hægt að slaka á eftir daginn eða á milli brauta. Það eru veitingastaðir við ströndina.

Þess má geta að Siam Park býður upp á 5 vikna námskeið fyrir fólk sem vill gerast sundlaugaverðir. Nánari upplýsingar á heimasíðu Siam Park (undir recruitment).

Vatnsrennibrautagarður
Hér verður ekki aftur snúið

Mikil gæsla er í garðinum og hann er mjög snyrtilegur. 

Foreldrum sem horfa á unglingana sína fara í þessa er ráðlagt að fá sér sæti á meðan

Tower of Power er ein svakalegasta rennibrautin á Kanaríeyjum. (14 ára aldurstakmark.) Hún er 28 metra há og 76 metra löng (Hallgrímskirkjan er 74,5). Fólk getur náð allt að 80 km hraða og ferðinni lýkur með því að renna í gegnum rör sem liggur undir hákarlalaug.