Ferðast með börn

Ferðast með börn

Tenerife er mjög barnvæn eyja. Það er auðvelt að komast um allt með barnakerrur. Stéttarnar eru oftast úr marmara eða flísum og því þægilegt að keyra kerrur á þeim. Eyjan er mjög örugg, en samt er alltaf gott að hafa þá reglu að láta börnin aldrei úr augsýn. 

Þar sem flugið er langt (um 5 tímar) borgar sig að vera að minnsta kosti 10 daga til að njóta ferðarinnar sem best. Flest hótel eru innan við hálftíma akstur frá flugvellinum, þannig að það er hægt að byrja að slaka á stuttu eftir lendingu.

Bestu svæðin fyrir börn

Bestu svæðin til að vera á með börn eru við Amerísku ströndina og á Adeje svæðinu. Það eru til dæmis svæðin Fañabe, Torviscas, og El Duque. Mælt er með að bóka hótel með fullu fæði þegar ferðast er með börn. Annars geta evrurnar verið fljótar að hverfa þegar það þarf að kaupa drykki og ís á sundlaugasvæðinu, og mat yfir daginn.

Í næsta nágrenni við vinsælustu strendurnar eru verslanir þar sem er hægt að kaupa stranddót fyrir börnin. Kútar, skóflur, fötur og form til að sulla með eða búa til listaverk. Það er auðvelt að búa til skemmtilegar minningar á ströndinni eða í sundlaugagarðinum.

Ef þið verðið á íbúðahóteli eða í íbúð þá eru meiri upplýsingar um matvöru og verð hér.

Berfætt börn á strönd
Tenerife hentar tásum af öllum stærðum

Hótel fyrir barnafjölskyldur

Stærstu hótelin eru með sérstök barnaleiksvæði, bæði í sundlaugagarðinum og innandyra. Þetta á að vera tekið fram á heimasíðum hótelanna.

Parque Santiago III hótelið (við „Laugaveginn“) er með skemmtilegt, afgirt barnasvæði með litlum rennibrautum og leiktækjum í grunnri laug. Þetta er íbúðahótel og ef þið gistið þar þá er til dæmis hægt að fá íbúð á neðstu hæð með afgirtum garði sem snýr út að sundlauginni. Þetta er eitt af uppáhaldshótelum Íslendinga með börn á öllum aldri.

Beint á móti Parque Santiago III er mínígolf inni í fallegum garði og það er hægt að kaupa drykki á staðnum. Hér er fjallað nánar um bestu fjölskylduhótelin og hvaða þjónusta er í boði; krakkaklúbbar, barnaleiksvæði og fleira.

Það er margt í boði fyrir börn og það sem stendur upp úr hjá flestum er Síam Park vatnsrennibrautagarðurinn sem hefur nokkrum sinnum verið valinn sá besti í heimi. Þar eru brautir fyrir alla aldurshópa og afgirt svæði fyrir yngstu börnin. Nánari lýsing á skemmtigörðum er undir flipanum Afþreying.

Go-kart og afþreying fyrir börn

Önnur afþreying er meðal annars minigolf, go-kart, klifurbrautir við Vistas-ströndina, stjörnuskoðunarstöð á El Teide, vísindasafn og margt fleira. Kíkið á hlutann um afþreyingu fyrir börn til að sjá meira.

Leigja barnastóla, kerrur o.fl.

Það er hægt að leigja kerrur, barnabílstóla, burðarpoka, ferðarúm, ömmustóla og fleiri barnagræjur hjá tækjaleigunni Hire4baby og fá afhent á flugvellinum eða hótelinu. Í lok ferðarinnar eru leigðir munir síðan einfaldlega sóttir til ykkar eftir samkomulagi. Það er bæði hægt að greiða fyrir þjónustuna fyrirfram eða borga bílstjóranum við afhendingu. Það er boðið upp á að leigja samdægurs en þá þarf að hringja í símanúmerið sem er gefið upp á heimasíðu Hire4Baby.

Margar íslenskar fjölskyldur hafa nýtt sér þessa þjónustu og mæla 100% með henni. Leigan er bæði á Tenerife og Kanarí.

Brjóstagjöf og vörur fyrir ungbörn

Það er gott vöruúrval fyrir ungbörn í Alcampo

Margir foreldrar hafa lent í vandræðum með að finna þurrmjólk. Sum apótek á ferðamannasvæðinu selja þurrmjólkina frá Nan (Nestle). En það er líka mikið úrval af ungbarnavörum í matvöruverslun Alcampo. Hér er hægt að finna Nan pro, lífræna Hipp þurrmjólk, og fleiri gerðir. Þarna er líka listi yfir bleyjur og stærðir; Pañales talla 1-7. Þurrmjólk er leches infantiles.

Mæður með börn á brjósti ættu að gefa oftar, þar sem börnin verða þyrst í hitanum. Samkvæmt brjóstagjafaráðgjafa er það útbreiddur misskilningur að það þurfi að gefa ungbörnum vatn samhliða brjóstagjöf, en það er ekki rétt.