Öryggi & neyðartilvik

Öryggi & neyðartilvik

Símanúmer

Neyðarnúmerið er 112 eins og á Íslandi. 

Aðstoð við Íslendinga erlendis – Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins er með símavakt allan sólarhringinn, í síma +354 – 545-0-112.

Greiðslukort og verslanir

Hér gilda sömu almennu reglur og á Íslandi. Það er allt í lagi að nota eigið veski en ekki skilja verðmæti eftir, t.d. á borði veitingastaða meðan þið skreppið frá.

Þegar borgað er með kortiALDREI láta kortið úr augsýn. Ef afgreiðslumaður/kona vill fara með kortið á bak við og þykist vera með bilaðan posa eða eitthvað álíka, fáið þá að fara með eða segið nei. Farið frekar í hraðbanka. Ekki gefa eftir í svona tilvikum. 

Það hefur lengi verið varað við því að versla raftæki eða dýra hluti af smásölum, sem eru með litlar verslanir hér og þar á svæðinu. Það er full ástæða fyrir því að fararstjórar hafa varað við þessu. Það hefur margsinnis komið fyrir að ef fólk freistast til að kaupa t.d. myndavél eða síma þá getur eitthvað allt annað verið í kassanum þegar heim er komið. Þess í stað er hægt að fara í viðurkenndar raftækjaverslanir í verslunarmiðstöðvunum sem er öruggt að versla af, til dæmis í Alcampo, Gran Sur og El Corte Inglés.

Góð regla er að vera ekki með mikið reiðufé á sér og ekki nema 1 greiðslukort, helst með lágri inneign. Við höfum flest gott aðgengi að netbönkum í símanum svo það ætti að vera lítið mál að skammta sér dag- eða vikupeninga á greiðslukortin.

Öryggi á ströndinni

Passið vel upp á hlutina ykkar á ströndinni. Þetta vitum við nú flest en samt sem áður sést stundum til fólks á sundfötunum einum saman á lögreglustöðinni að tilkynna þjófnað. Til að fyrirbyggja þjófnað á ströndinni er best að vera með vatnshelt hulstur eða tóman brúsa, t.d. undan sólarvörn sem búið er að hreinsa að innan. Þannig hulstur er hægt að nota undir lykla, peninga og þess háttar. Það er líka hægt að nota tómt ílát undan blautþurrkum. Skiljið vegabréfin eftir á hótelinu (bílstjórinn þarf samt að hafa sitt vegabréf) og forðist að vera með mörg greiðslukort á ykkur í einu.

Síðustu árin hefur sérstaklega verið varað við Veronicas-svæðinu á Amerísku ströndinni.

Öryggi í skemmtigörðum

Í vatnsrennibrautagörðunum (og flestum skemmtigörðum) er hægt að leigja geymsluskápa fyrir allt sem má ekki blotna. Þeir eru inni hjá búningsklefunum og eru merktir á korti eða leiðarvísi sem fylgir garðinum. Svo þegar pása er tekin, er einfalt að sækja sér pening eða kort áður en farið er að borða, og skila svo aftur í skápinn fyrir næstu törn.

Umferðin

Íslendingar (og þá sérstaklega þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu), geta fengið menningarsjokk yfir kurteisinni í umferðinni á Tenerife. Það er nánast alltaf stoppað fyrir fólki á gangbrautum og mikið tillit er tekið til gangandi vegfarenda. Á hraðbrautunum þekkja bílstjórar muninn á hægri og vinstri akrein, og nota þá vinstri til framúraksturs.

Lögreglan

Lögreglan er vel sýnileg og það eru nokkrar lögreglustöðvar á ferðamannasvæðunum. Þar er yfirleitt enskumælandi lögreglumaður á vakt. En fyrir utan helstu ferðamannastaðina gæti þurft að hafa túlk með, nema þið talið spænsku.

Policía Nacional. Við Amerísku ströndina er lögreglan rétt hjá Siam Mall, en hinum megin við hraðbrautina. Á Adeje-svæðinu er lögreglan ofan við hraðbrautina, á svipuðum slóðum og golfvöllurinn.

Á myndinni má sjá lögreglumenn svæðisins, Policía Local, en ríkislögreglan er Policía Nacional. Það er einnig algengt að lögregla sé óeinkennisklædd á vakt.

Ræðismaður Íslands

Ræðismaður Íslands á Kanaríeyjum er með aðsetur á Las Palmas á Gran Canaria (Kanarí), sem er við hliðina á Tenerife. Það er hægt að fara á milli eyjanna með ferju, sem siglir til og frá höfninni í Los Cristianos (gamla bænum). Heimilisfangið er: Avenida de Canarias 22, Edificio Bitacora, Torre Norte, ES-35002 Las Palmas de Gran Canaria.
Netfang: canaryislands@icelandconsulate.es – Hér er heimasíða ræðismannsins á Kanaríeyjum.
Sími: Landsnúmer 34 – (928) 365 870.

Athugið að það þarf að hafa vegabréf á sér þegar farið er á milli eyjanna þótt þær tilheyri allar Kanaríeyjaklasanum. Ef þið hafið týnt vegabréfi ykkar þarf að fara á næstu lögreglustöð ríkislögreglunnar.