Santa Cruz – Höfuðborgin

Höfuðborg Tenerife er Santa Cruz

Santa Cruz er höfuðborg Tenerife og hún er staðsett á norðausturhluta eyjunnar. Íbúar eru um 220 þúsund. Við mælum með að fara í göngutúr eftir aðalverslunargötunni Calle del Castillo og koma sér svo vel fyrir á útiveitingastað og skoða mannlífið eða skella sér á hvítu ströndina Las Teresitas (sandurinn var fluttur inn frá Sahara-eyðimörkinni). Áhugaverðir staðir eru meðal annars Plaza de España eða spænska torgið og tónlistarhúsið Auditorio de Tenerife

Plaza de España
Bæjarlífið í Santa Cruz

Það tekur ekki nema um klukkustund að aka frá Amerísku ströndinni til Puerto de la Cruz og um 45 mínútur til höfuðborgarinnar Santa Cruz. Fyrir fólk sem kýs að keyra ekki sjálft er boðið upp á skoðunarferðir og strætóferðir. Að komast inn og út úr borginni getur verið flókið svo kynnið ykkur vel leiðina (næst borginni), númer fráreina o.þ.h. ef þið eruð ekki með GPS tæki. (Vegir TF5 og TF2.)

Auditorio de Tenerife

Það er mjög vinsælt að fara í verslunarferð til Santa Cruz en nánar er fjallað um það í hlutanum um verslanir. Ef þið eruð á Tenerife í febrúar og langar í einstaka upplifun, þá er ómissandi að taka þátt í kjötkveðjuhátíðinni eða karnivalinu, Carnaval de Santa Cruz sem er annað stærsta karnival í heimi á eftir Rio de Janeiro. Meira um hátíðina hér.

Einstakt útsýni yfir Atlantshafið frá tónlistarhúsinu
Teresitas-ströndin fyrir og eftir innflutning á Sahara-sandi. (Mynd Islas Canarias).

Santa Cruz skoðunarferð

Í þessari óhefðbundnu ferð eru leyndardómar höfuðborgarinnar kannaðir. Sögur af draugum, sjóræningjum, nornum og yfirnáttúrulegum atburðum. Þetta er allt önnur hlið á Tenerife.