Fyrsta daginn

Best er að plana sem minnst fyrsta daginn meðan þið venjist hitanum. Þetta á sérstaklega við um vetrartímann þegar hitamunurinn á Íslandi og Tenerife getur verið 20-35°C. (Það getur verið eins og að labba á vegg þegar þið komið út úr flugstöðinni.)
Nauðsynlegt er að kaupa sem fyrst vatn og sólarvörn, annað hvort á flugvellinum eða í nálægri búð þegar þið komið á hótelið/íbúðina. Líka after sun eða aloe vera gel til að kæla húðina eftir daginn, og after bite og/eða repellent til að forðast moskítóbit. Moskítóflugurnar eru á Tenerife allt árið en það getur farið eftir svæðum hvar þær eru.
Gott að vera með plástra til að forðast að fá blöðrur undan núningi við skó við mikið labb, sérstaklega ef þið eruð ekki vön miklu labbi eða eruð í nýjum skóm.

Vatn

Það er best að kaupa vatn í stórum brúsum (6-8 lítra) og nota það til að fylla á smærri flöskur. Athugið að velja vatn með sem minnstu eða engu klóri (chloride). Font Vella er mjög líkt íslenska vatninu. Stundum er boðið upp á að nota síu fyrir kranavatn og þá helst í leiguíbúðum. Kranavatn er yfirleitt ekki drukkið nema það sé síað en það er allt í lagi að nota kranavatn til að bursta tennurnar.

Gott að vita

Kanaríeyjar tilheyra Spáni og Tenerife er stærst eyjanna. Tungumálið er spænska og gjaldmiðillinn evra €. Íbúar Tenerife eru um 900.000.

Á veturna er sami tími og á Íslandi en á sumrin munar klukkustund. Rafmagnið er eins og á Íslandi og því hægt að stinga síma og tölvu beint í samband.

Þegar greitt er með korti er oftast hægt að velja á posaskjánum hvort greitt er í evrum eða íslenskum krónum. Veljið alltaf evrur því annars getur reiknast hærra gengi og varan verður dýrari fyrir vikið. Passið líka að láta kortið aldrei úr augsýn. Almennur söluskattur á vörum er 5%.

Litlar eðlur eru í flestum görðum. Þær eru hræddar við fólk en halda flugum í burtu. Það er hægt að gefa þeim að borða.

Eðlurnar á Tenerife eru alveg meinlausar
Litlu eðlurnar á Tenerife eru alveg meinlausar. Þessi er um 10 cm löng og finnst skinka góð.