Garachico & náttúruböðin

Garachico er bær á norðvesturhluta Tenerife með um 5.000 íbúum. Áður fyrr var bærinn aðalhöfn Tenerife, eða allt þar til árið 1706 þegar eldgos lagði bæinn nánast í rúst. Á innan við 15 tímum hafði hraunið runnið yfir höfnina og hluta af bænum. Viku seinna rann annar hraunflaumur yfir meirihluta bæjarins og aðeins lítill hluti hans slapp. Hraunið myndaði náttúruböðin sem Garachico er þekkt fyrir í dag.

Tenerife.is
Iglesia de Nuestra Señora de los Ángeles

Bærinn og náttúran umhverfis hann eru einstaklega falleg. Í bænum eru þröngar götur, fallegir garðar og litríkar byggingar. Sögufrægar byggingar í Garachico eru meðal annars kirkjurnar Iglesia de Nuestra Señora de los Ángeles og Santa Ana, sem var endurbyggð eftir gosið. Aðrar merkilegar byggingar eru meðal annars menningarhúsið Casa de la Cultura, en þar eru meðal annars þjóðminjasafn og bókasafn, sem er inni í klaustrinu Convento de San Francisco de Asís.

Garachico er einstaklega fallegur bær

Aðaltorg bæjarins, Plaza de la Libertad, slapp í eldgosinu. Á torginu og þar í kring eru kaffihús og veitingastaðir. Markverðir staðir sem er hægt að skoða í Garachico eru kastali frá 16. öld, Castillo de San Miguel en þar eru veitingastaðir með fallegt útsýni yfir hafið. Garðarnir í Plaza de Juan Gonzáles de la Torre eru í 4. sæti á TripAdvisor yfir markverða staði á Tenerife en þar er meðal annars hægt að sjá upprunalega gangveginn að höfninni sem var grafinn upp. Útsýnisstaðurinn Mirador de Garachico er fyrir ofan bæinn, það tekur um korter að keyra þangað. Þaðan er hægt að sjá hvar hraunið rann niður í bæinn.