Strendurnar á Tenerife

Strendurnar á Tenerife

Á aðal ferðamannasvæðinu, á suðurhluta Tenerife, eru fjölmargar strendur þar sem er hægt að slaka á og endurnæra sál og líkama. Ameríska ströndin skiptist í nokkrar smærri strendur og á þeim er hægt að velja um að liggja á handklæði eða leigja sólbekk. Þar eru líka útisturtur til að skola af sér sandinn og sjóinn. Öryggisfánar eru við flestar af stærri og fjölmennari ströndunum, en þeir eru notaðir til að gefa til kynna hvort það er óhætt að fara í sjóinn. Litir fánanna eru útskýrðir neðst á þessari síðu.

Las Vistas-ströndin á suðurhluta Tenerife
Las Vistas-ströndin er ein stærsta og besta ströndin á Tenerife

Ameríska ströndin – Vistas ströndin

Ein lengsta ströndin er Las Vistas-ströndin við Amerísku ströndina. Hún byrjar rétt hjá aðalverslunargötunni („Laugaveginum“) og endar við undirgöngin að Los Cristianos. Þó það geti verið mikið af fólki þá er alltaf nóg pláss fyrir alla, enda er ströndin bæði löng og breið. Í sjónum við Las Vistas-ströndina eru uppblásin leiktæki til að klifra í og renna sér út í sjóinn. Þar er líka sérstakt svæði fyrir fólk sem notar hjólastóla

Las Vistas-ströndin og verslunarkjarni
Playa del Camisón – Hluti af Amerísku ströndinni

Það er dökkur eða svartur sandur á mörgum af ströndunum en það er líka hægt að fara á strönd með hvítum sandi, sem hefur í flestum tilvikum verið fluttur inn frá Sahara eyðimörkinni í Afríku.

Adeje

Við Amerísku ströndina og strendurnar á Adeje svæðinu geta yngri börnin leikið sér í flæðarmálinu en fyrir eldri börn og unglinga er mesta fjörið það að láta öldurnar bera sig áfram eða kafa undir þær.

Playa del Duque er á Costa Adeje svæðinu. Þar er frekar ljós sandur og klettar sem ná út í sjó og gefa skjól. Nokkur af bestu hótelum Tenerife eru staðsett á svæðinu fyrir ofan.

Los Cristianos – Gamli bærinn

Ströndin í Los Cristianos er mjög fín, bæði fyrir börn og fullorðna. Þetta er að margra mati besta ströndin á suðurhlutanum. Þar er hægt að liggja á ljósri ströndinni og horfa yfir höfnina, þar sem er stundum hægt að sjá Pétur Pan skipið. Ljósi sandurinn á Vistas og Los Cristianos ströndunum var innfluttur frá Sahara eyðimörkinni. 

Pétur Pan skipið við höfnina í Los Cristianos
Pétur Pan skipið við höfnina í Los Cristianos

El Médano

Playa del Médano er í bænum El Médano sem er fallegur bær á suðurhluta eyjunnar, rétt hjá flugvellinum. Þangað fer fólk til að fara á brimbretti enda nóg af stórum öldum. Ströndin er mjög löng, nokkrir kílómetrar, og ljós sandur og grunnur sjór næst ströndinni. Ljósi sandurinn er þarna af náttúrunnar hendi en ekki innfluttur frá Sahara eins og á mörgum af ljósu ströndum Tenerife. Þarna er gott aðgengi fyrir hreyfihamlaða.

Playa de la Tajita er stór strönd rétt hjá El Médano á suðurhlutanum. Þar sem hún er ekki við stærstu ferðamannastaðina er hún fáfarnari og sumir nota hana sem nektarströnd. En ekki allir, þannig að ykkur er óhætt að prófa hana.

Abama ströndin

Playa de Abama er lítil og mjög falleg strönd fyrir neðan Guía de Isora og Abama golfvöllinn, mitt á milli Costa Adeje og Los Gigantes. Ljós sandur og klettar í kring. Það er um 20 mínútna gangur (tröppur) að ströndinni frá bílastæði við Ritz-Carlton hótelið. Sumir segja að þetta sé besta ströndin á Tenerife.


Teresitas-ströndin í Santa Cruz

Las Teresitas-ströndin í höfuðborginni Santa Cruz er hvít og mjög falleg. Ástæðan fyrir hvíta sandinum er sú að árið 1973 voru 270.000 tonn af sandi flutt inn frá Vestur-Sahara-eyðimörkinni. Varnargarðurinn fyrir framan ströndina var settur upp til að koma í veg fyrir að sandurinn sogaðist á haf út. 20 árum síðar var nokkrum tonnum af sandi bætt við.

Göngustígur að ströndinni við Puerto de la Cruz
Playa Jardín ströndin í Puerto de la Cruz

Puerto de la Cruz

Í bænum Puerto de la Cruz fyrir norðan eru tvær strendur sem vert er að skoða; Playa Jardin og El Bollullo.

El Bollullo er mest notuð af heimamönnum og göngufólki enda er hún í talsverðri fjarlægð frá stoppistöðinni (ef þið takið strætó). Þaðan er stórbrotið útsýni yfir Atlantshafið, sem nær óslitið þaðan og alla leið til Íslands.

Playa Jardin er svört strönd, svipað og við eigum að venjast á Íslandi. Ströndin er vinsæl bæði meðal þeirra sem vilja slaka á í sólbaði eða þeirra sem vilja skella sér á brimbretti. Ströndin tilheyrir grasagarði svo þarna er hægt að ganga um og skoða framandi plöntur og leiksvæði. Playa Jardin liggur nálægt Loro Parque-dýragarðinum.

Öryggisfánar

Flestar baðstrendur nota fána til að gefa til kynna hversu öruggt er að fara í sjóinn. Hér fyrir neðan er lýsing á litum fánanna og hvað þeir tákna. Stundum eru lífverðir á vakt, en ekki á öllum ströndunum.

  • Rauður fáni: Bannað að fara í sjóinn. Getur varðað sektum.
  • Gulur fáni: Sýnið aðgát.
  • Grænn fáni: Öruggt að fara í sjóinn, gott veður.