Karnival Tenerife

Karnival Tenerife

Carnaval de Santa Cruz er annað stærsta karnival í heimi á eftir Rio de Janeiro. Síðustu ár var talað um að 200.000 gestir mættu á karnivalið en það stökk í 400.000 í mars 2019, sem var metár. Í ljósi aðstæðna var karnivalið ekki haldið 2021. Núna, 2022, var því frestað fram til júní.

Karnivalið 2022

Karnivalinu á Tenerife var frestað þar til í júní. Það verður haldið 4. – 26. júní 2022. Aðalkvöldið verður 25. júní. Dagskráin er hér neðar á síðunni.

Karnival Tenerife 2023

Karnivalið í höfuðborginni Santa Cruz 2023 verður að öllu óbreyttu haldið 12.-26. febrúar. Dagsetningar karnivalsins í öðrum borgum og bæjum Tenerife eru yfirleitt á svipuðum tíma.

Þema og dagsetningar er mismunandi milli bæja. Hér fyrir neðan eru kynningarplaköt frá nokkrum af hátíðunum 2019. Plaköt fyrir 2022 verða sett inn um leið og þau koma. Nánari upplýsingar neðar á síðunni.

Karnivalið í Santa Cruz, Tenerife

Saga kanareyska karnivalsins

Karnivalið er undir sterkum áhrifum frá Suður-Ameríku. Heimildir eru um karnival á Kanaríeyjum frá árinu 1556. Ástæðan er sú að margir íbúar Kanaríeyja flúðu til Suður-Ameríku þegar Spánverjar yfirtóku eyjarnar á 15. öld. Þau sem fluttu til baka komu með þennan sið með sér. Við þökkum þeim fyrir það.

Þegar einræðisherrarnir Rivero (1923-1935) og Franco (1940-1960) stjórnuðu Kanaríeyjum var karnivalið bannað. En eyjarskeggjar létu það ekki stoppa sig og breyttu nafni hátíðarinnar einfaldlega í „Vetrarhátíðin.“

Hvað er svona sérstakt við karnivalið?

Ef þið verðið á Tenerife þegar karnivalið er og langar í einstaka upplifun, þá er hægt að mæta á hátíðina, á útiviðburði sem eru opnir öllum. (Þeir viðburðir eru á dagskránni neðar á síðunni.) Karnivalið stendur yfir í um mánuð með fjölmörgum viðburðum. Á lokadeginum er dansað um götur miðbæjarins við trumbuslátt sem heyrist á hverju horni og stemmingin er mögnuð. Það er mikil gleði í loftinu og fólk hugsar um það eitt að skemmta sér og hafa gaman. Það er enginn aðgangseyrir, en óskrifuð regla að mæta í búningi! Það eru viðburðir yfir daginn líka og á öðrum stöðum á eyjunni. Athugið að aðalskrúðgangan um kvöldið hentar alls ekki börnum.

Ef þið eruð að hugsa um að fara á karnivalið þá er sniðugast að gista ekki í höfuðborginni Santa Cruz, þar sem hún verður undirlögð af hátíðarhöldum, með tilheyrandi götulokunum og látum. Það verður hægt að taka strætó og rútur á karnivalið frá öðrum bæjum og borgum. Nálægasta borgin við Santa Cruz er La Laguna. En svo tekur ekki nema sirka klukkutíma að keyra frá ferðamannasvæðinu á suðurhlutanum.

Búningabúðir eru víða, til dæmis í Santa Cruz. Búningar á fullorðna kosta undir og yfir 5.000 kr. Sérstakar skrúðgöngur eru haldnar fyrir börn og fjölskyldur víðsvegar um eyjuna, á mismunandi dögum meðan á karnivalinu stendur. Dagsetningar viðburða verða birtar hér á síðunni þegar þær berast.

Dagskrá og þema 2022 – Santa Cruz

Santa Cruz Carnaval

Þema

Þema hverrar hátíðar er mismunandi á milli ára, en búningar gesta eru ekki endilega í stíl við það. Þema karnivalsins 2022 er vísindaskáldskapur (sci-fi).

Dagskrá

Dagskráin er með svipuðu sniði ár eftir ár, en með nýjum hópum og atriðum. En þar sem kjötkveðjuhátíðinni var seinkað fram á sumar, verður hún með aðeins einfaldara sniði í ár. Það á aðallega við um smærri viðburði.

Stærstu opnu viðburðirnir (útidjammið) eru merkt með bláu hér í dagskránni. Í ár verður stærsta karnival-kvöldið í Santa Cruz laugardagskvöldið 25. júní.

Staðsetning hvers viðburðar er í sviga. Þeir eru haldnir miðsvæðis í höfuðborginni Santa Cruz.


 • 3. júní – Innsetningarathöfn karnivalsins (Recinto Ferial)
 • 10. júní– Kl. 21.30. Karnivaldrottning (fullorðin), Galakvöld (Recinto Ferial, lokaður viðburður)
 • 12. júníKl. 17.00. Karnivaldrottning (eldri), Galakvöld (Recinto Ferial, lokaður viðburður)
 • 19. júní – Kl. 18. Karnivaldrottning barna (Recinto Ferial, lokaður viðburður)
 • 23. júní – Kl. 21. Carnaval en la Calle, fyrsta götukarnivalið (miðbær Santa Cruz)
 • 24. júní – Kl. 19. Stóra skrúðgangan um kvöldið (miðbær Santa Cruz)
 • 25. júníKarnival og plötusnúðar allan daginn og um kvöldið (miðbær Santa Cruz)
 • 26. júníLokahátíð

Myndir frá karnivalinu

Fleiri myndir frá karnivali síðustu ára er hægt að skoða hér.

Auglýsingaplakat karnivalsins 2020 – Þema ársins var sjötti áratugurinn (1950-1959)

Los Cristianos

Los Cristianos – Þema 2019: Frumskógurinn

Dagskrá 2023 verður kynnt fljótlega eftir áramótin. Hátíðarnar eru haldnar á mismunandi dögum yfir eyjuna. Síðast var þemað frumskógurinn. 2019 tóku um 30.000 manns þátt í skrúðgöngunni í gamla bænum í Los Cristianos og það er ekki gert ráð fyrir færri í ár. Þetta er mögnuð upplifun! Nánari upplýsingar um aðra viðburði væntanlegar.

 • xx. júní Hátíðin sett með skrúðgöngu á Playa de las Americas-svæðinu (Amerísku ströndinni)
 • xx. júní Karnival-drottningin kosin
 • xx. júní Karnival-dragdrottningin valin – Los Cristianos
 • xx. júní Karnival að degi til (El Carnival de Día de Los Cristianos)
 • xx. júní Karnival-skrúðganga í Los Cristianos
 • xx. júní Jarðarför Sardínunnar (Entierro de la Sardina)

Puerto de la Cruz

Puerto de la Cruz – Þema 2019: Geimurinn
Karnivalið í Los Gigantes

Fastir viðburðir

Rondallas er einn af viðburðum karnivalsins. Þar flytja kórar sín atriði ásamt strengjasveitum. Flytjendur keppast við að vera í sem flottustum búningum. Rondallas fer fram í tónlistarhúsinu Auditorio de Tenerife.

Murgas eru sönghópar sem keppa í fullum skrúða í anda trúðsbúninga. Hljóðfærin eru einföld, því aðaláhersla er lögð á lagatextana. Textarnir eru oftast ádeila eða háð og vísa á fyndinn eða krítískan hátt í atburði úr þjóðfélaginu. Murgas er því svipað og áramótaskaup okkar Íslendinga í leikritaformi. Murgas er alltaf beðið af mikilli eftirvæntingu og það verður strax uppselt á viðburðina. Murgas hefur verið haldið frá 1917. Hóparnir samanstóðu þá aðeins af karlmönnum en frá 1972 hafa konur tekið jafnan þátt í skemmtiatriðunum.

Murgas Infantiles er þriggja daga barnahátíð. Þar keppast hópar barna á öllum aldri um flottustu söngatriðin og búningana. Murgas Infantiles var hluti af Murgas-viðburðinum þar til 1972, þegar börnin fengu sína eigin hátíð. Karnivalhátíðin byrjar á börnunum.

Hlátursöngurinn, La Canción de la Risa, og Jarðarför sardínunnar, Entierro de la Sardina, eru táknrænir viðburðir sem marka upphaf og endi hátíðarhaldanna. Það eru sömu tímabil og upphaf og endir páskaföstunnar. Þess má geta að jarðarför sardínunnar er sama dag og öskudagur Íslendinga. Í jarðarför sardínunnar er fortíðin grafin, til að gefa framtíðinni meira vald til að koma hlutum í eðlilegt horf.