Hjólreiðar

Á Tenerife eru frábærar aðstæður til að stunda hjólreiðar allt árið um kring. Veðurfarið og hitastigið er nokkuð jafnt allt árið og hér verður ekki jafn heitt á sumrin eins og í Suður-Evrópu. Athugið að hitastigið er yfirleitt nokkrum gráðum lægra fyrir norðan, sérstaklega yfir veturinn.

Hægt er að velja um fjölmargar leiðir sem henta bæði áhugafólki og atvinnumönnum og þar er El Teide þjóðgarðurinn allra vinsælasta svæðið. Næst á eftir eru Teno-fjallgarðurinn í norðvestur og Anaga-fjallgarðurinn í norðaustur.

Það er hægt að fara á eigin vegum, með eigið hjól eða leigt, eða fara með ferðaskrifstofu á Tenerife. Skipulögðum ferðum fylgja yfirleitt tryggingar, skutl til og frá hóteli og máltíð. Meðalverð á ferðir getur verið um 5.000 kr. (með mat).

Reynsluminna hjólreiðafólk þarf að gera ráð fyrir minna þoli og meiri þorsta vegna hitans og gott er að byrja á stuttri leið til að prófa þolið.

Athugið að það er skylda fyrir hjólreiðafólk að nota hjálm.

Nokkrar af vinsælustu leiðunum

El Teide þjóðgarðurinn

Vestur- og suðurhluti, en El Teide eldfjallið er eitt af hæstu fjöllum Evrópu. Keppendur í Tour de France koma hingað til að undirbúa sig fyrir keppni og vinningshafinn 2012 þakkaði sigurinn meðal annars þjálfun sinni hér. Vinsælustu leiðirnar á hvorum hluta eru um 35-40 km aðra leiðina, með um 6% meðalhalla alla leiðina upp. Athugið að þar sem vegurinn liggur efst á fjallinu er loftið um 50% þynnra en við sjóinn.

Vesturhluti El Teide

Frá Playa de las Américas upp í þjóðgarðinn. Á þessari leið er mjög fjölbreytt landslag og gróður.

Suðurhluti El Teide

Ferðin byrjar yfirleitt frá El Roque eða Vilaflor við suðurhlíð þjóðgarðsins og liggur gegnum skóginn og upp brattann að El Teide. Á þessari leið er stórbrotið útsýni yfir nágrannaeyjarnar.

Tamaimo til Santiago del Teide

Ein vinsælasta leiðin frá ferðamannasvæðinu. 6 km og 5% meðalhalli. (TF-82)

Masca – „týnda þorpið“

Það þarf lágmark 1 dag á ströndinni eftir þessa leið! Mjór, hlykkjóttur vegurinn liggur frá Santiago del Teide og niður í dalinn. Beygjurnar kallast hárnálabeygjur. Þessi leið er alls ekki fyrir óvana. 11% meðalhalli.

Vegurinn til Masca

San Andrés til San Cristóbal de La Laguna

Ein fallegasta hjólaleið Spánar. Þessi leið er í Anaga-fjallgarðinum fyrir norðan höfuðborgina Santa Cruz. Hún byrjar við sjóinn og endar í bænum La Laguna, sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Vegurinn er góður og það er lítil umferð. (TF-12)

Pico del Inglés

Þetta er hluti af leiðinni hér á undan, liggur frá La Laguna í austur upp fjallið. Fyrstu 4 km eru auðveldir en svo tekur hlykkjóttur vegur við þannig að það er erfitt að halda meðalhraða. Við enda leiðarinnar (ef komið er frá La Laguna) er útsýnisstaðurinn Mirador. Leiðin er 9 km, 4% meðalhalli. (TF-12)

Costa Adeje að Teno fjallgarðinum

Leiðin liggur frá ferðamannasvæðinu, gegnum Playa San Juan, upp hjá Los Gigantes að Santiago del Teide. Farið eftir vegi TF-436 fram hjá Masca og að Buenavista del Norte. Þaðan liggur leiðin að San Juan del Reparo, El Tanque og aftur að Santiago del Teide og svo Costa Adeje. Mikil áskorun en magnað útsýni. 140 km.

Punta de Teno

Punta de Teno

Carretera del Faro eða „Vitavegurinn.“ Ótrúlega falleg en hrikaleg leið sem endar hjá vitanum á vestasta punkti Tenerife. Þessi leið er aðeins fyrir mjög vant hjólreiðafólk! Athugið að vegurinn hefur ekki verið góður á köflum og það er hætta á grjóthruni. Vegurinn er lokaður í miklum vindi og þegar rignir en einnig eru komnar takmarkanir á almennri umferð. Sjá hlutann um Punta de Teno fyrir nánari upplýsingar. Byrjunaratriðið í Fast and the Furious 6 var tekið upp hér, enda er umhverfið stórfenglegt, eins og sést á skjáskoti úr myndinni hér til hliðar. Hér er hægt að horfa á atriðið.