La Laguna

La Laguna 1880

San Cristóbal de La Laguna eða La Laguna eins og bærinn er almennt kallaður, er við hliðina á Santa Cruz. Bærinn er á heimsminjaskrá UNESCO og er jafnframt háskólabær Tenerife. La Laguna er fyrrum höfuðborg Tenerife og þar er að finna ótal söfn, meðal annars stjörnufræði-, tækni- og vísindasafnið Museo de la Ciencia y El Cosmos og safn um sögu Tenerife, Museo de Historia. Sumar byggingarnar eru frá 15. öld.

Þetta er mjög fallegur spænskur bær með litríkum húsum og ótal hliðargötum sem gaman er að ganga um. Háskólinn í La Laguna er á skrá hjá LÍN ef einhver vill breyta til. Myndin er af kappellunni Ermita de San Miguel Arcángel á Adelantado-torgi en San Miguel Arcángel er verndardýrlingur Tenerife.

Aðrir áhugaverðir staðir í La Laguna eru Plaza del Adelantado, Convento de Santa Clara de Asis-klaustrið, Iglesia de la Concepción og Palacio de Nava, sem er glæsihýsi frá byrjun 18. aldar. Það var í eigu Marquis de Villanueva del Prado, sem stóð fyrir uppbyggingu grasagarðsins í Puerto de la Cruz. Byggingu Iglesia de la Concepción-turnsins lauk árið 1511 og hann státar af stærstu kirkjuklukku eyjunnar. Hjá ráðhúsinu Ayuntamiento er upplýsingamiðstöð sem býður upp á stuttar gönguferðir um gamla bæinn.

Við innrás Spánverja árið 1496 lýsti Alonso de Lugo því yfir að La Laguna yrði höfuðborg Tenerife. Borgin er nefnd eftir stöðuvatni (laguna) sem er löngu horfið. Í dag er La Laguna önnur stærsta borg Tenerife og þriðja stærsta borg Kanaríeyja, með tæplega 160 þúsund íbúa, um 30.000 fleiri en búa í Reykjavík. Til viðbótar eru um 30.000 nemendur í háskóla La Laguna.

Fyrir ofan bæinn er svo útsýnisstaðurinn Mirador de San Roque. Útivistarfólk ætti að fletta upp Macizo de Anaga-gönguleiðinni.

Iglesia de la Concepción (Mynd Koppchen)