Langtímaleiga

Langtímaleiga

Stundum duga bara ekki 2 vikur.

Fyrir ykkur sem eruð að hugsa um að vera meira en mánuð á Tenerife, þá eru hér nokkrar síður sem mælt er með að nota við íbúðaleit. Þær sýna flestar bæði leiguíbúðir og íbúðir til sölu.

Það er farið aðeins betur yfir svæðin neðar á síðunni. Leiguverð íbúða er almennt hæst nálægt helstu ferðamannasvæðunum (Adeje og Arona). En það er hægt að finna ódýrar íbúðir fjær þeim svæðum. Ameríska ströndin og Los Cristianos eru á Arona-svæðinu, og Fanabe og El Duque eru í Adeje.

Ameríska ströndin og Los Cristianos eru á Arona-svæðinu og Fanabe í Adeje

Eyjan er lítil, þannig að það eru aldrei mjög langar vegalengdir sem þarf að fara. Til dæmis tekur aðeins um klukkustund að aka að ferðamannasvæðinu ef þið ákveðið að búa alveg hinum megin á eyjunni. Ef þið þekkið eyjuna ekki vel þá er best að skoða Google Maps til að finna út vegalengd að næstu matvöruverslun og þjónustu. Líka til að skoða hvar strætó (TITSA) stoppar, ef þið ætlið ekki að vera á bíl.

Ef þið eruð norðanmegin á eyjunni getur verið kalt á nóttunni yfir veturinn. Húsin eru þá yfirleitt hituð með gasofnum.

Það er sniðugt að dvelja fyrstu vikurnar á hóteli eða leigja íbúð hjá Airbnb eða Booking, meðan leitað er að rétta svæðinu eða íbúð. Sérstaklega ef planið er að vera lengur en 3 mánuði.

Hvar er best að búa?

Staðsetning og verð fara eftir því hvort fólk vill vera á aðal ferðamannasvæðinu (Arona og Adeje) eða fyrir utan það. Íbúðir við Amerísku ströndina, Fanabe og Los Cristianos eru yfirleitt dýrari en annars staðar á eyjunni. Almennt eru íbúðir á ferðamannasvæðinu við sjóinn dýrari en íbúðir ofan við hraðbrautina, en það getur verið öfugt í öðrum bæjum, þ.e. dýrara hærra uppi þar sem er svalara loft.
Fyrir fólk sem vill vera nálægt ferðamannasvæðinu en samt aðeins fyrir utan, þá eru margir hrifnir af bæjunum Puerto de Santiago sem er á móti Los Gigantes-klettunum og El Médano. Aðrir bæir eru til dæmis Garachico, sem er sögufrægur bær, Las Galletas, El Porís, og San Isidro. Myndin efst á síðunni er af húsi á Airbnb, í Icod de los Vinos.
Ef ykkur langar að upplifa spænska menningu er líka hægt að vera í höfuðborginni Santa Cruz eða Puerto de la Cruz, Los Realejos, eða La Laguna, sem er með svipaðan íbúafjölda og Reykjavík. Fjölmennustu borgir Tenerife eru Santa Cruz og La Laguna.

Hús og gata á Tenerife
Garachico

Það eru fjölmargir fallegir staðir sem koma til greina. Það er um að gera að skoða síðuna vel til að fá fleiri hugmyndir um norður– og suðurhluta Tenerife. Svo er líka mismunandi hvaða þjónustu fólk þarf, (sjúkraþjálfun, pósthús, apótek o.s.frv.). Á Google maps er hægt að athuga hvaða þjónusta er í boði á hverjum stað. Hér eru leiðbeiningar um hvernig er best að leita.

Booking.com

Hvernig er best að finna íbúð?

Það er mismunandi hvað er innifalið í leigu. Það er tekið fram í hverri skráningu. Airbnb-íbúðir eru í flestum tilfellum með nettengingu og sjónvarp. Það getur verið betri kostur að leigja Airbnb-íbúð en venjulega íbúð ef þið eruð ekki viss um hvaða svæði þið viljið vera á. Og líka ef þið viljið prófa að gista á nokkrum stöðum en ekki vera á sama stað alla ferðina.

Smáa letrið: Ef beðið er um að leiga sé greidd fyrirfram inn á erlendan bankareikning þá millifærið alls ekki. Ef um svik er að ræða, er engin leið að rekja slóð peninganna.

Öruggustu greiðsluleiðirnar eru kreditkort (Visa/MasterCard) og Paypal því þá er hægt að ábyrgjast greiðslurnar.

Orðalisti

Á Spáni er gefinn upp herbergjafjöldi miðað við fjölda svefnherbergja, ólíkt Íslandi þar sem stofan er talin með. Ef þið eruð að leita að íbúð með 1 svefnherbergi þá er það einfaldlega 1 habitación (skammstafað hab) eða 1 dormitorio. Eldavélar eru annað hvort rafmagns eða gas.

Ef enska er ekki í boði, eru nokkur orð sem lærast fljótt þegar þið farið að leita að íbúð:

  • Leigja = alquilar/alquiler  
  • Kaupa = comprar
  • Svefnherbergi = habitación/hab/dormitorio
  • Baðherbergi = baños  
  • Eða meira = o más 
  • Svalir = balcón  
  • Verð til-frá = precio desde-hasta

Leigumiðlanir á Tenerife, Kanaríeyjum og Spáni

Hér eru vinsælustu leigumiðlanirnar sem fólk notar til að leita að íbúð á Spáni og Kanaríeyjum. Til gamans má geta þess að idealista var styrktaraðili Eurovision keppninnar 2022. Leigumiðlanirnar eru oft líka með söluskrá íbúða á Spáni og Kanaríeyjum. Oftast er hægt að velja um tungumál.

Smellið á nafn hér fyrir neðan til að fara á heimasíðu viðkomandi leigumiðlunar. Til að einfalda leitina, hafa sumar síðurnar verið stilltar þannig að þær opnast á leitarniðurstöðum fyrir íbúð með 1 svefnherbergi og stundum á tilteknu svæði. Heimasíða fotocasa opnast á leitarvél á ensku. Þegar heimasíðan opnast getið þið breytt leitinni eins og ykkur hentar.

Þegar þið hafið fundið íbúð, er best að hafa samband við viðkomandi leigumiðlun og spyrja um tryggingar. Athugið líka hvort það sé einhver aukakostnaður. Leigumiðlanir taka stundum þóknun sem samsvarar 1 mánaðarleigu.

Leigusamningur

Yfirleitt þarf bara að sýna vegabréf þegar leigusamningur er gerður. Oftast þarf ekki að hafa spænska kennitölu (NIE). Passið ykkur á að millifæra aldrei fyrirframgreiðslu fyrir íbúð, nema þið hafið skoðað hana og séuð komin með samning. Ef þið eruð ekki viss hvort það sé í lagi að greiða, getið þið haft samband beint við leigumiðlunina sem viðkomandi íbúð er skráð hjá. Það er að segja; idealista, kyero, fotocasa, eða enalquiler.

Santa Cruz de Tenerife

Athugið að þegar leitað er að íbúðum á Tenerife, er eins og allar íbúðirnar séu í höfuðborginni Santa Cruz, en það er ekki þannig. Þetta er einfaldlega eins og hluti af nafni svæðisins innan Spánar, þ.e. Santa Cruz de Tenerife. Ef þið eruð ekki viss þá er best að setja nafn bæjarins eða allt heimilisfangið inn á Google Maps til að sjá rétta staðsetningu.