Puerto de la Cruz

Puerto de la Cruz er yfir 500 ára gamall hafnarbær á norðurhluta Tenerife, í um 30 km fjarlægð frá höfuðborginni. Puerto de la Cruz er andstæðan við þurra loftslagið á ferðamannasvæðinu og fyrstu ferðamennirnir sem komu hingað á 19. öld komu af heilsufarsástæðum, enda eru náttúran og umhverfið falleg og fjölbreytt. Í bænum er El Botánico-garðurinn, næstelsti grasagarður Spánar en hann opnaði 1788.
Þetta er bærinn sem dýragarðurinn Loro Parque er í. Þegar komið er á þennan hluta eyjunnar er ekki algengt að hitta fólk sem talar ensku (fyrir utan veitingastaði og Loro Parque) en í staðinn er hægt að sjá hvernig daglegt líf eyjarbúa er.

Í miðbænum er sundlaugagarðurinn Lago Martiánez og aðeins lengra frá honum er hægt að fara á brimbretti. Fyrir ykkur sem langar að ganga um og skoða mannlífið er t.d. hægt að ganga frá Lago Martiánez að Playa San Telmo, setjast inn á einn af veitingastöðunum eða kíkja í búðir. Í La Ranilla eru fjölmargir veitingastaðir með fjölbreyttu úrvali af mat; allt frá tapas til dýrari staða. Það er nóg af bílastæðum við sjóinn, rétt fyrir neðan Plaza del Charco og La Ranilla.

Við enda götunnar Calle de San Telmo er kirkjan Iglesia de Nuestra Señora og Plaza de la Iglesia. Þaðan er best að ganga eftir Calle Quintana og enda á Plaza del Charco sem er aðaltorg bæjarins. Þar er hægt að setjast niður og fá sér til dæmis tapas eða pizzu.
Ein elsta kapella Kanaríeyja er í miðbæ Puerto de la Cruz, Ermita de San Amaro. Hún er frá 16. öld og tilgangur hennar var að snúa frumbyggjum eyjunnar til kristni. Kapellan sést hér á myndinni af miðbænum, ofarlega fyrir miðju.


