Puerto de la Cruz

Puerto de la Cruz er yfir 500 ára gamall hafnarbær á norðurhluta Tenerife, í um 30 km fjarlægð frá höfuðborginni. Puerto de la Cruz er andstæðan við þurra loftslagið á ferðamannasvæðinu og fyrstu ferðamennirnir sem komu hingað á 19. öld komu af heilsufarsástæðum, enda eru náttúran og umhverfið falleg og fjölbreytt. Í bænum er El Botánico-garðurinn, næstelsti grasagarður Spánar en hann opnaði 1788.

Þetta er bærinn sem dýragarðurinn Loro Parque er í. Þegar komið er á þennan hluta eyjunnar er ekki algengt að hitta fólk sem talar ensku (fyrir utan veitingastaði og Loro Parque) en í staðinn er hægt að sjá hvernig daglegt líf eyjarbúa er.

Calle de San Telmo – Þarna sést í góðan veitingastað í klettaveggnum

Í miðbænum er sundlaugagarðurinn Lago Martiánez og aðeins lengra frá honum er hægt að fara á brimbretti. Fyrir ykkur sem langar að ganga um og skoða mannlífið er t.d. hægt að ganga frá Lago MartiánezPlaya San Telmo, setjast inn á einn af veitingastöðunum eða kíkja í búðir. Í La Ranilla eru fjölmargir veitingastaðir með fjölbreyttu úrvali af mat; allt frá tapas til dýrari staða. Það er nóg af bílastæðum við sjóinn, rétt fyrir neðan Plaza del Charco og La Ranilla.

Það er stór verslunarmiðstöð í Puerto de la Cruz, La Villa. Þar eru tískubúðir, sérvöruverslanir og matvörubúðin Alcampo. Hér er hægt að sjá allar verslanir í La Villa.

Við enda götunnar Calle de San Telmo er kirkjan Iglesia de Nuestra Señora og Plaza de la Iglesia. Þaðan er best að ganga eftir Calle Quintana og enda á Plaza del Charco sem er aðaltorg bæjarins. Þar er hægt að setjast niður og fá sér til dæmis tapas eða pizzu.

Ein elsta kapella Kanaríeyja er í miðbæ Puerto de la Cruz, Ermita de San Amaro. Hún er frá 16. öld og tilgangur hennar var að snúa frumbyggjum eyjunnar til kristni. Kapellan sést hér á myndinni af miðbænum, ofarlega fyrir miðju.

Miðbær Puerto de la Cruz
Lago Martiánez er sundlaugasvæði við sjóinn
Náttúrufegurð í Puerto de la Cruz ofan við Playa Jardín-ströndina