Gönguleiðir á Tenerife

Gönguleiðir á Tenerife

Fjölmargar gönguleiðir eru um alla eyjuna, hvort sem það er fyrir léttar og stuttar göngur eða fjallgöngur fyrir lengra komna. Einstök veðrátta gerir það að verkum að hægt er að stunda útivist allt árið um kring. Yfir vetrartímann er þægilegt hitastig en yfir sumarið getur stundum verið of heitt fyrir göngur sem reyna mikið á.

Skilti fyrir gönguleiðir

Dæmi um léttar gönguleiðir eru leiðin að svæðinu fyrir ofan Teresitas-ströndina í höfuðborginni Santa Cruz. Einnig Montaña Roja (rauða fjallið) í El Médano.

Sandsteinsklettarnir við Vilaflor

Blómabærinn Vilaflor

Ein gönguleiðin með mikilli náttúrufegurð er við bæinn Vilaflor efst í hlíðum El-Teide-þjóðgarðsins, Paisaje Lunar-leiðin. Hún liggur frá kirkjunni að sandsteinsklettum sem hafa mótast í vindinum. Þessi leið er um 4 klst löng og er miðlungserfið.

Gönguleiðin að húsarústunum

Ein mjög falleg og vinsæl leið er Rambla de Castro-leiðin rétt hjá Puerto de la Cruz og Los Realejos, þar sem er gengið í átt að sjónum og húsarústum. Leiðin byrjar hjá Maritim-hótelinu rétt hjá Loro Parque, sem er í miðbæ Puerto de la Cruz en það er líka hægt að hefja ferðina frá veitingastaðnum San Pedro í Los Realejos. Á þessari leið er fjölbreyttur gróður og fallegt útsýni.

Orotava-dalurinn

Í Los Realejos er líka annar staður sem er áhugavert að skoða, sérstaklega ef þið eruð að leita að fallegum útsýnisstað. Mirador de la Corona. Þaðan er mjög fallegt útsýni yfir Orotava-dalinn og hafið. Þessi staður er líka mjög vinsæll fyrir svifvængjaflug vegna þess hvað hann stendur hátt uppi. Til að komast þangað er farið upp í Icod el Alto og eftir veginum El Lance.

El Teide

El Teide-þjóðgarðurinn

Í El Teide-þjóðgarðinum eru margar gönguleiðir með mismunandi erfiðleikastigi. Þetta er mjög vinsælt göngusvæði og fyrir þau sem eru að plana gönguferð er t.d. hægt að hefja hana frá eina hótelinu í þjóðgarðinum, Parador de Las Cañadas del Teide. Athugið samt að ef þið viljið fara alla leið á toppinn þarf að fá leyfi hjá Parque Nacional del Teide. Fararstjórar geta líka gefið nánari upplýsingar um leiðir og hópferðir. Nánari upplýsingar eru væntanlegar hér á síðuna.

Mirador de la Corona. (Mynd LosRealejos.travel)

Anaga-fjallgarðurinn

Anaga-fjallgarðurinn

Nokkrar af bestu gönguleiðum Tenerife eru á norðurhluta eyjunnar. Það er meðal annars vegna þess að þar er gróðurinn mjög gróskumikill og landið ekki jafn þurrt og fyrir sunnar. Eitt fallegasta svæðið fyrir lengri fjallgöngur er Anaga-fjallgarðurinn. Þar eru fjölmargar styttri og lengri leiðir.