Leigubílar

Það eru leigubílastöðvar víðsvegar á ferðamannasvæðunum og helstu borgum, og ekki dýrt að taka leigubíla.

Leigubílar á Tenerife (og víðar á Spáni) eiga nú að hafa bláar númeraplötur, til að aðgreina þá frá leigubílum sem aka án leyfis til farþegaaksturs.

Hér eru tvær leigubílastöðvar þar sem er hægt að panta leigubíl á netinu með fyrirvara, t.d. til að láta sækja sig á flugvöllinn. Sendið okkur endilega skilaboð hér eða á Facebook ef þið mælið líka með öðrum.

Book TAXI. Barnabílstólar og -sæti, fyrirferðamikill farangur (golfsett o.fl.), sérferðir um eyjuna. Nokkrar stærðir af bílum í boði.

Official Taxi Tenerife. Það er hægt að haka við sérþjónustu, t.d.  ef þið eruð með hjólastól eða golfsett. 15 € aukagjald fyrir stærri hluti eins og reiðhjól og brimbretti.

Dæmi um verð fyrir 2 farþega frá flugvellinum að Costa Adeje er 37,45 € (um 4.500 ISK). Sama verð ef það bætast við 2 börn.

Ef pantað er til eða frá flugvellinum Tenerife Sur (TFS) þá heitir hann líka Reina Sofia (Flugvöllur Soffíu drottningar). Tenerife Sur er sá flugvöllur sem er flogið til frá Íslandi og hann er rétt hjá ferðamannastöðunum Arona og Adeje (Fañabe, Ameríska ströndin, og Los Cristianos). Það tekur yfirleitt um 15-20 mínútur að keyra frá flugvellinum að Amerísku ströndinni og Los Cristianos, en 20-30 mínútur að hótelum á Fañabe og El Duque-svæðunum. Sjá nánari lýsingu á svæðunum á Suður-Tenerife.

Barnabílstólar

Á þessari síðu er svo hægt að leigja barnabílstóla, kerrur og fleira fyrir börnin á meðan fjölskyldan ferðast um Tenerife. Margir Íslendingar hafa notað þessa leigu og mæla með henni. Hire4Baby.

(Fyrirtækin hafa ekki greitt fyrir auglýsingar eða kynningar hér á síðunni.)