Calima

Calima

Calima er eyðimerkurstormur frá Sahara-eyðimörkinni í Afríku. Sandstorminum fylgir yfirleitt mikill hiti (um eða yfir 40°C). Calima gengur oftast yfir á 2-5 dögum.

Þetta er algengt veðrabrigði á Kanaríeyjum en það er misjafnt hversu slæm loftgæðin verða. Yfirleitt er fólki samt ráðlagt að vera ekki mikið að reyna á sig úti við, sérstaklega fólk með viðkvæm öndunarfæri.

Áhrif á heilsu

Fólki með viðkvæm öndunarfæri er ráðlagt að halda sig innandyra meðan sandstormurinn gengur yfir.

Í þessum hita er mjög mikilvægt að drekka vökva með söltum (electrolytes). Mikil vatnsdrykkja á hreinu vatni getur komið ójafnvægi á sölt í líkamanum og því mæla læknar með að drekka einnig drykki eins og Powerade og Gatorade. Ef þið hafið ekki tök á að nálgast svona drykki með söltum, er hægt að setja smá salt og sykur í venjulegt vatn. Svo þarf líka að passa að drekka ekki meira en 1 lítra af venjulegu vatni á klukkustund.

Ferðafólk sem er óvant hita finnur yfirleitt mest fyrir þessu veðri. Hér eru nokkur ráð til að líða sem best í mesta hitanum:

  • Drekka nóg af vatni og vökva með söltum (electrolytes)
  • Forðast sólina milli kl. 11-16
  • Vera í léttum fatnaði
  • Nota siesta – rólegheit innandyra í mesta hitanum
  • Vera á loftkældum svæðum
  • Takmarka útiveru og áreynslu

Veður-app

Með því að ná í veður-app í símann, er hægt að fylgjast með veðuspám á einfaldan hátt. Oftast er hægt að skoða spá viku fram í tímann. Þannig er hægt að búa sig undir veðrabreytingar, eins og þessa. Eða sjá hvenær þetta líður hjá.

Vefmyndavél

Á síðu WebTenerife er hægt að sjá á vefmyndavélum hvernig veðrið er í dag. Vefmyndavél er til dæmis hjá Vistas ströndinni á Tenerife (ein af ströndunum á Amerísku ströndinni).


Áhrif á flug

Sandstormurinn hefur sjaldan raskað flugi en það gerðist þó fyrir ekki mjög löngu síðan. Eflaust muna einhverjir eftir því þegar miklar tafir urðu á flugi árið 2020. Þá var yfir 200 flugferðum seinkað eða aflýst til og frá eyjunum. Það hafði áhrif á ferðir um 20.000 farþega, þar á meðal Íslendinga. Flugvellinum á Gran Canaria var lokað tímabundið og mikil röskun var á flugi frá báðum flugvöllum Tenerife, suður (TFS) og norður (TFN). Einhverjir þurftu að lenda á Fuerteventura í staðinn, en sú eyja er næst Afríku, við hliðina á Gran Canaria. Stormurinn hafði líka áhrif á karnivalið þetta ár og var hluta af dagskrá helgarinnar aflýst, enda fer karnivalið að mestu fram utandyra.

Ef tafir verða á flugi meðan calima gengur yfir, er farþegum bent á að fylgjast með fréttum frá sínu flugfélagi. Hér er heimasíða flugvallarins á Suður-Tenerife (TFS).

Hætta á gróðureldum

Svona miklum hita fylgja oft gróðureldar en þeir hafa yfirleitt engin áhrif á fólk á ferðamannasvæðunum. En ef þið ætlið að skoða El Teide eða fjallaþorp næstu daga, er gott að fylgjast með hvort einhverjir gróðureldar séu á svæðinu.

Stundum sjást engisprettur með sandrokinu. Þær halda sig við gróðurinn og láta fólk í friði.