Verslanir í Adeje
X-Sur (Verslanir og bíó)
X-Sur (hét áður Gran Sur) er verslunarmiðstöð í Adeje. Þar er líka matvöruverslunin Mercadona, en þar er yfirleitt ódýrast að versla í matinn. Í X-Sur er líka bíó þar sem er hægt að sjá myndir á ensku og spænsku. Bíómiði fyrir fullorðna og eldri en 12 ára er 7,5 evrur, en 6 evrur fyrir yngri en 12 og eldri en 60.
Hér er listi yfir verslanir og þjónustu í X-Sur. Yfirleitt er opið 10-22 alla daga, líka um helgar. Dæmi um búðir eru Intersport (íþrótta- og útivistarvörur), Stradivarius, Women’s Secret, Springfield, Perfumeria og margar fleiri. Barnagæsla er í boði.
Hjá Movistar og Vodafone er hægt að kaupa símakort og netpung (þarf að framvísa vegabréfi við þannig kaup). Þarna er líka raftækjaverslun þar sem er hægt að láta laga síma.
Siam Mall
Siam Mall opnaði 2015 og þar eru meira en 70 verslanir. Þar er að finna tískuverslanir eins og Stradivarius, Bershka, Zara, Timberland, Women’s secret, Mango, H&M og skóverslunina Zona Zero. Stórar stærðir eru m.a. í boði í H&M, Mango og Punt Roma. Þarna er ýmis þjónusta og veitingastaðir, þar á meðal steikhús þar sem er hægt að fá mjög góða nautasteik. Hér er listi yfir búðir í Siam Mall.
Það er mjög flott útileiksvæði fyrir börn á efstu hæðinni, bæði Drago Siam ævintýragarður og LEGO-svæði. Á 2. hæð er dótabúðin Dreamland.
Siam Mall er opin alla daga frá 10-10, 365 daga á ári, samkvæmt heimasíðu þeirra. Boðið er upp á ókeypis strætóferðir frá Los Cristianos, Las Américas og Costa Adeje. Það er um 10 mínútna akstur frá þessum svæðum að Siam Mall, sem er fyrir ofan hraðbrautina.
Plaza del Duque
Í Plaza del Duque er hægt að fá merkjavörur eins og BOSS, Armani, Max Mara, Rolex, Marc Jacobs, Tory Burch, Tom Ford, Missoni, og mörg önnur merki. Einnig spænska tískumerkið Desigual. Þar fæst líka Samsonite merkið (hágæða ferðatöskur), svo nokkur dæmi séu tekin.
Aðrar verslanir eru meðal annars Superdry, Esprit, Mango, Skechers, Kids Corner (LEGO, Disney) og Sunglass Hut. Hér er listi yfir verslanir og vörumerki sem fást í Plaza del Duque.
Í Fañabé er íþróttavöruverslunin Sprinter (rétt hjá hjólabrettagarðinum Skatepark Adeje).
Duke Shops
Duke er verslanamiðstöð með yfir 38 búðum. Þar eru fatabúðir, lífsstílsverslanir og veitingastaðir. Hún er á Avenida de Bruselas, (rétt hjá GF Gran hótelinu). Þar eru til dæmis Superdry, Guess, Calvin Klein Jeans, Armani, Levi’s, Sunglass City, Intersport, Lyna Accessories, Benetton, og Hiperdino matvörubúð.