Verslanir á Amerísku ströndinni

Verslanir á Amerísku ströndinni

Laugavegurinn

Aðalverslunargatan á suðurhluta eyjarinnar er yfirleitt kölluð Laugavegurinn” af okkur Íslendingum. Hún heitir réttu nafni Avenida de Las Américas en Laugavegurinn hljómar bara miklu betur. Íslendingar eru ekki eina þjóðin sem hafa gefið henni sitt eigið nafn. Bretar kalla hana til dæmis The Golden Mile eða Gullna mílan.

Á Laugaveginum eru meðal annars tískuverslanirnar Zara, Stradivarius og BershkaFlestar verslanir eru opnar frá 10-10. Hvar sem verslað er á eyjunni þá er fínt að versla föt á kvöldin, því þá er lægri hiti og til dæmis auðveldara að máta föt.

Safari verslunarmiðstöðin (Laugavegurinn)

Þessi er sú sem er hjá stóra gosbrunninum, sem margir nota til að mæla sér mót. Í litlu verslunarmiðstöðinni Safari á móti Parque Santiago III hótelinu, eru úra- og skartgripaverslun, fataverslanir og skóverslanir. Margir hafa varað við því að kaupa tæki eins og síma, myndavélar og þess háttar í Safari, eftir að hafa lent í vörusvikum. Þetta á við um fleiri smærri raftækjasala. Það borgar sig að kaupa dýrar vörur á viðurkenndum sölustöðum, eins og í Alcampo Mall (La Laguna) eða X-Sur (Adeje).

Við Parque Santiago IV er búð sem heitir Ale-Hop en þar er hægt að versla alls konar hluti; leikföng, kúta, ritföng, heimilisvörur og fleira. Ale-Hop er víðsvegar um eyjuna. Kínabúðir eru víða um eyjuna en þar fæst allt milli himins og jarðar, meðal annars eitthvað af garni og prjónavörum.

Parque Santiago 6

Parque Santiago 6 er lítil verslunarmiðstöð, rétt hjá golfvellinum Las Américas, um 5 mínútna akstur frá Laugaveginum. Þar er Mercadona matvöruverslunin, Intersport, H&M, Desigual og fleiri. Hér er listi yfir verslanir.

Desigual er spænskt merki

Íþróttavörur

Við miðja Amerísku ströndina er íþróttavöruverslunin Sport Zone. Þar eru m.a. vörur fyrir hjólreiðar. Nálægt henni er Dive Shop, verslun með allt fyrir brimbretti. Hún er við hliðina á H10 hótelinu við Amerísku ströndina. Nálægt Veronicas-svæðinu er íþróttavöruverslunin Sprinter (rétt hjá hótelinu Sol Tenerife) en hún er einnig í Fañabé (á Adeje-svæðinu).

Varist vörusvik

Það er eitt sem þarf að varast og það er að kaupa aldrei raftæki nema í stærri verslunum, þar sem nokkuð er um vörusvik í smærri búðum. Þar á meðal hefur oft verið varað við að kaupa raftæki og dýra vöru í litlu verslunarmiðstöðinni hjá Parque Santiago, Safari, og öðrum litlum verslunum.