Verslanir

Hér er samantekt yfir helstu verslanir og verslunarmiðstöðvar á Tenerife. Fyrst eru taldar upp stærslu mollin í höfuðborginni Santa Cruz. Og næst er það Puerto de la Cruz og Realejos fyrir norðan. Neðst eru tenglar á síður fyrir búðir og verslunarmiðstöðvar á ferðamannasvæðinu; Adeje, Amerísku ströndinni og Los Cristianos.

Það eru meðal annars risaverslanir á borð við Alcampo, El Corte Inglés, og Meridiano. Þar eru búðir með alls konar vörur, eins og fatnað, skó, leikföng, meðgönguvörur, húsgögn, síma og gæludýravörur. Opnunartíminn er yfirleitt frá 10-10 alla daga í stóru verslunarmiðstöðvunum.

Stærstu búðunum fylgir listi yfir verslanir eða vörumerki

Til að einfalda leitina í lista yfir vörumerki, geturðu ýtt á control (ctrl) og F á lyklaborðinu, til að fá upp leitarglugga. Þar geturðu slegið inn það orð, búð eða þjónustu sem þú ert að leita að.

Verðlag á Tenerife

Verðlag á Tenerife og Kanaríeyjum er mjög hagstætt. Þar er söluskattur sem er mismunandi eftir vöruflokkum. Matvara eins og brauð og mjólk eru með 0% skatt, og aðrar nauðsynjavörur með 3%. Innfluttur matur er oft dýrari. Almennur söluskattur á vörum er 7% en raftæki geta verið í kringum 3%. Sumar lúxusvörur eru með 13,5% skatt. Það getur því verið sérstaklega hagkvæmt að kaupa raftæki á eyjunni, enda nánast Tax Free alla daga! Gætið samt að því að þið gætuð þurft að borga virðisaukaskatt (24%) af vörum sem þið kaupið úti, þegar þið komið til Íslands.

Kortagreiðslur

  • Þegar greitt er með korti er oftast hægt að velja á posaskjánum hvort greitt er í evrum eða íslenskum krónum. Veljið alltaf evrur. Annars getur reiknast hærra gengi en er í íslenskum bönkum og varan verður dýrari fyrir vikið.
  • Það er misjafnt eftir bönkum hvað gengi og færslugjöld eru há, þegar kort eru notuð erlendis. Það er meðal annars hægt að kynna sér það á Fjármálatips og Sparnaðartips á Facebook.
  • Passið að láta kortið aldrei úr augsýn, til að forðast kortasvindl. Það er einnig mikilvægt að fá kvittun og bera hana saman við færslur á kortayfirlitinu ykkar.

Santa Cruz & La Laguna

Í höfuðborginni Santa Cruz og rétt fyrir utan hana, í La Laguna, eru stærri verslunarmiðstöðvar og meira úrval af verslunum en á suðurhlutanum.

Það tekur um 45 mínútur að aka á milli Santa Cruz og Los Cristianos/Amerísku/Adeje. Strætósamgöngur þarna á milli eru mjög góðar (meira hér um strætó).

Ef þið farið á bílaleigubíl borgar sig að hafa GPS tæki eða leiðarvísi í síma, því það getur verið flókið að rata inn í höfuðborgina. (Vegir TF5 og TF2.)

Alcampo Mall

Alcampo Mall er ein stærsta verslunarmiðstöð eyjunnar. Hún er mitt á milli Santa Cruz og La Laguna. Þar fæst næstum allt og á frábæru verði, til dæmis raftæki, símar, ritföng, föt, leikföng og matur. Búðir sem eru í Alcampo Mall eru meðal annars H&M, Zara, Stradivarius, Bershka, Mango og margar fleiri. Alcampo matvöruverslunin er sú stærsta á eyjunni og frekar ódýr. 

Þetta er ein af búðunum þar sem er öruggt að kaupa raftæki, síma, úr og þess háttar.

Opnunartími í Alcampo er 10-22 (birt með fyrirvara um breytingar).

Decathlon, Toys“R“Us, IKEA (hjá Alcampo)

Við hliðina á Alcampo Mall eru Toys“R“Us, C&A (föt), og Prénatal (meðgönguvörur). IKEA er líka á þessu svæði. Rétt hjá IKEA er Leroy Merlin, sem er svipuð og Byko og Húsasmiðjan. Það er mjög flott dótabúð rétt hjá IKEA, Nikki Toy Store (Juguetería Nikki). Hinum megin við götuna er Decathlon, stór íþróttavöruverslun. Við hliðina á Decathlon eru El Corte Inglés outlet og Kiwoko gæludýrabúð.

Við Alcampo er svo hægt að fara í bíó hjá Multicines.

El Corte Inglés – Risamoll í Santa Cruz

Rétt hjá tónlistarhúsinu við sjóinn, er spænska verslanakeðjan El Corte Inglés. Hún er á hvorki meira né minna en 7 hæðum, enda finnst þar nánast allt sem þarf fyrir heimili og fjölskyldu. Þar fæst allt frá fatnaði til heimilistækja. Bökunardeildin er efni í sér ferð, fyrir áhugafólk um bakstur. Í El Corte Inglés fást líka föt í stórum stærðum. Á 3. hæð er Disney búð og mörg flott barnafatamerki. Það er veitingastaður á efstu hæðinni og matvara og bílastæði í kjallaranum. Opið alla daga nema sunnudaga frá 9.30-21.30. Hér er listi yfir vörumerki í El Corte Inglés.

Meridiano

Í miðbæ Santa Cruz er ein stærsta verslunarmiðstöð Tenerife, Meridiano. Hún er í sömu götu og El Corte Inglés (tekur 2 mínútur að keyra á milli eða 10 mínútur að labba). Innkeyrsla í bílastæðakjallarann undir Meridiano er hjá Primark.

Búðir sem eru í Meridiano eru til dæmis tískubúðirnar Guess, Bershka, Stradivarius, Springfield, H&M, Levi’s, og Jack & Jones. Barnaföt fást meðal annars í Mayoral. Svo er geggjuð skóbúð í endanum fjærst Primark; MaryPaz, með sandala, hælaskó, bandaskó og veski. Aðrar skóbúðir eru Skechers og RKS Footwear. Íþróttaskór og íþróttaföt fást í Wanna Sneakers. Það er ein Primark verslun á Tenerife, hún er í Meridiano í endanum þar sem bíóið er. Svo eru vörur eins og skartgripabúðin Swarovski, og vandaðar ferðatöskur í Pacomartianez. Movistar, Vodafone og Xiaomi eru öruggar farsímabúðir. Og fyrir þau sem eru að leita að gleraugum, linsum eða sólgleraugum þá er gott úrval í +Visión. Hér er listi yfir búðir og þjónustu í Meridiano. Þar er hægt að sjá myndir úr búðunum.

Anaza Carrefour

Verslunarmiðstöðin Centro Comercial Carrefour (Anaza) er á nokkrum hæðum. Meðal verslana eru fatabúðir, íþróttabúðir og dótabúð. H&M, Nike, Disney Store, Intersport, Zara, Bershka, Springfield, Women’s Secret, Herb Shop og Jysk. Raftækjabúðirnar Worten og Movistar eru með frábært úrval af farsímum, heilsuúrum og fleiri raftækjum (öruggar búðir, ekkert svindl).

Hér er hægt að skoða vöruflokka í Carrefour og sjá hvaða búðir og þjónusta er á staðnum. Listinn er á spænsku. Til dæmis eru fataverslanir undir MODA og barnavörur INFANTIL.

Farsímar og tæki

Worten, Movistar, Vodafone, Orange, Xiaomi, og Banana eru farsímabúðir þar sem er öruggt að kaupa síma, úr, airpods, spjaldtölvur og önnur tæki. Meðal annars frá iPhone, Samsung, Xiaomi, LG og fleirum. (Aldrei kaupa þannig tæki af litlum búðum við ferðamannasvæðið (Amerísku og Adeje), sem eru alræmdar fyrir að svindla á fólki.)

Movistar og Vodafone eru í flestum af stóru mollunum á Tenerife, og Worten er í mörgum þeirra. Movistar, Vodafone, og Orange eru símafyrirtæki, svo þar er líka hægt að kaupa símakort, netpunga og þess háttar. Worten er svipuð og Elko. Apple-búðin Banana er í La Laguna og Santa Cruz.

Íþrótta- og útivistarvörur

Decathlon íþróttavöruverslunin er beint á móti Alcampo (það þarf að keyra á milli). Þar fæst allt fyrir íþróttir og útilegu. Þar er hægt að ná sér í gönguskó og búnað fyrir fjallgöngur, ef ykkur langar skyndilega að kanna fjöllin betur.

Sprinter íþróttavöruverslunin er einnig með útivistarvörur. Hún er staðsett á 3 stöðum í Adeje og á Amerísku ströndinni (sjá ofar á síðunni), og í höfuðborginni Santa Cruz.

Dótabúðir

Fyrir yngri kynslóðina eru nokkrar dótabúðir, þar á meðal Juguetería La Casita. Þær eru á nokkrum stöðum á Amerísku ströndinni. Þar fæst LEGO, Playmobil, Hvolpasveitin-leikföng, Nerf, spil, Pokémon, Marvel, og margt fleira. Líka Nikki Toy Store (Juguetería Nikki), sem er mitt á milli Los Cristianos og El Médano. Nikki er einnig rétt hjá Ikea og á fleiri stöðum í Santa Cruz. Í Plaza del Duque í Adeje er LEGO búð. Í Santa Cruz eru stórar leikfangabúðir; Toys“R“Us (rétt hjá Ikea), og Disney búð í El Corte Inglés (meira um El Corte Inglés hér neðar).

Húsgögn og heimili

Það eru margar verslanir sem selja húsgögn, garðhúsgögn eða smávöru fyrir heimilið. Þær vinsælustu eru til dæmis Leroy Merlin (Adeje og La Laguna), Chafiras, Ikea (Santa Cruz), og Jysk (Adeje, Santa Cruz, og Puerto de la Cruz). Önnur vinsæl húsgagnaverslun er Conforama, (við hraðbrautina fyrir ofan Golf del Sur-golfvöllinn). Einnig Nomi í Fañabé (Adeje), og Decor Internacional (Adeje, La Orotava, og Santa Cruz).

Í Santa Cruz er Jysk í verslunarmiðstöðinni Carrefour (Anaza).

Heimilistæki, sjónvörp, þvottavélar, húsgögn og húsmunir fást meðal annars í Leroy Merlin, Conforama, og Chafiras. Og allt fyrir viðhald heimilisins, (rafmagnsvörur gólfefni, málning, verkfæri og þess háttar) fæst í Leroy Merlin, sem er svipuð verslun og Byko og Húsasmiðjan.

Puerto de la Cruz & Los Realejos

Það eru verslanir af öllum stærðum og gerðum í Puerto de la Cruz. Þær eru víða í miðbænum og líka við hraðbrautina sem liggur á milli La Orotava og Los Realejos. Alcampo Mall er verslunarmiðstöð með flestum af sömu búðum og eru í Alcampo Mall í Santa Cruz. Jysk og Leroy Merlin eru báðar staðsettar við hraðbrautina fyrir ofan Puerto de la Cruz. Það er Worten raftækjaverslun í Los Realejos.

(Fyrirtækin hafa ekki greitt fyrir auglýsingar eða kynningar hér á síðunni.)