Costa Adeje

Costa Adeje

Ef þú ert að leita að sólríkum stað til að flýja til, ætti Costa Adeje á Tenerife að vera efst á lista hjá þér. Þessi dásamlegi áfangastaður er frægur fyrir glæsilegar strendur, líflegt næturlíf og frábær veitingahús. Í ferð til Costa Adeje geturðu átt von á að upplifa þetta:

Strendur

Strendurnar á Costa Adeje eru eflaust með þeim bestu á Tenerife. Hvort sem þú ert að leita að rólegri vík eða líflegri sandströnd, þá er eitthvað fyrir alla hér. Playa del Duque er ein vinsælasta ströndin á svæðinu, þökk sé mjúkum gullnum sandi og kristaltæru vatni. Til að eiga góðar stundir á friðsælli stað geturðu skoðað La Caleta ströndina, sem er umkringd háum klettum og er fullkomin til að snorkla.

Næturlíf

Costa Adeje býður upp á iðandi næturlíf sem hentar fjölbreyttum hópi. Hér er allt frá rólegum börum til trylltra næturklúbba og enginn skortur á stöðum til að sleppa fram af sér beislinu. Nokkrir af vinsælustu stöðunum eru Achaman Discopub, diskótek sem opnar 11 á kvöldin og er opið til 6. Annar vinsæll staður er Kaluna Beach Club. Það er veitinga- og skemmtistaður alveg við ströndina, þekktur fyrir sundlaugapartí. Þar er líka eilífðarlaug með útsýni yfir hafið og hægt að panta bekk fyrir sólbað á daginn.

Veitingastaðir

Matgæðingar eiga eftir að elska veitingasenu Costa Adeje, sem býður upp á allt frá hefðbundnum spænskum réttum til alþjóðlegrar matargerðar. Til að kynnast matarmenningu innfæddra er hægt að fara á Restaurante Otelo, sem býður upp á kjúkling og kanareyska sérrétti. Ef þig langar að fara eitthvað fínna út að borða, prófaðu Nub, Michelin-stjörnu veitingastað sem er á Bahía del Duque hótelinu.

Hreyfing

Til viðbótar við að drekka í sig sólina og njóta næturlífsins, er nóg að gera á Costa Adeje. Prófaðu að fara í bátsferð um strandlengjuna til að sjá eyjuna frá öðru sjónarhorni. Eða reyndu fyrir þér í svifvængjaflugi ef þú vilt aðeins meiri áskorun. Til að slaka á, er gaman að rölta eftir gangstígnum meðfram sjónum yfir á Amerísku ströndina. Eða jafnvel alla leið að gamla bænum í Los Cristianos, þar sem er hægt að kynna sér fjölbreytta veitingastaði, kaffihús og verslanir.

Á heildina litið er Costa Adeje frábær áfangastaður fyrir alla sem eru að leita að blöndu af sól, sjó, afslöppun eða skemmtun. Þægilegar strendur, fjölbreytt afþreying og gómsæt matargerð eru galdurinn á bak við það að svo margir ferðamenn streyma hingað ár eftir ár.

Hótel í Adeje