Skógareldar á Tenerife

Skógareldar á Tenerife

Uppfært 31.8. Eftir að slökkvistarfi lauk hefur tjón verið metið á 80,4 milljónir evra. Það er einna helst tjón á vegum, landbúnaði, og þjóðgarðinum þar sem eldarnir fóru yfir. En góðu fréttirnar eru að það tókst m.a. að bjarga stjörnuskoðunarstöðinni efst í Teide-þjóðgarðinum, en eldarnir voru aðeins nokkrum metrum frá byggingunum sem tilheyra henni.

Uppfært 28.8. Nú hafa mestu eldarnir verið slökktir og slökkvilið hefur góða stjórn á þeim eldum sem eftir eru. Það má því búast við að slökkvistarfi ljúki á næstu dögum.

Uppfært 24.8. Það er búið að ná tökum á eldunum og öllum íbúum á svæðinu hefur verið leyft að fara aftur heim til sín.

Uppfært 23.8. Nú er þetta loksins farið að líta betur út. Samkvæmt yfirvöldum á Tenerife, er slökkviliðið nú að vonast til að ná tökum á eldunum á morgun. Það er samt enn langt í land með að ná að slökkva þá alla, en samkvæmt þeim fer að styttast í það.

Eldarnir ná yfir um 90 km svæði efst í skógunum á Norðaustur-Tenerife. Vegna hækkandi hita er nú búist við að eldar kvikni að nýju á stöðum þar sem eldarnir höfðu verið slökktir. Reykurinn gæti haft áhrif á loftgæði á hluta Tenerife, sérstaklega á svæðinu frá norðaustur til norðvestur. Skógareldarnir hafa engin áhrif haft á ferðamannasvæðið eða flugvöllinn, enda eru þeir í góðri fjarlægð frá þeim svæðum, hinum megin á eyjunni.

Uppfært 20.8. kl. 19. Yfirvöld sendu frá sér tilkynningu í dag, um að eldarnir hefðu kviknað eftir íkveikju.

Í nótt gekk betur að ráða við skógareldana en áður. Þeir ná nú yfir um 84 km svæði í furuskógum í efstu hlíðum Tenerife. Eldarnir hafa engin áhrif haft á ferðamenn eða flugferðir. En ef þið ætlið í skoðunarferðir á norður- eða norðvestur hluta Tenerife, þá er talað um að loftgæði gætu verið verri á þessum svæðum vegna reyks: Garachico, Icod de los Vinos, Buenavista del Norte (þar sem golfvöllurinn er), og Puerto de la Cruz. Þetta getur breyst eftir vindátt.

Áhrif á strætó

Vegna eldanna hefur eftirfarandi strætóleiðum verið breytt. Athugið að nýjustu upplýsingar um strætóferðir eru á vef Titsa (strætó) og í appinu. Hér eru íslenskar leiðbeiningar um strætókerfið á Tenerife.

  • 342 frá Adeje fer bara að Vilaflor
  • 345 + 346 fara bara að El Recodo
  • 347 fer bara að La Llanada
  • 348 fellur alveg niður
  • 380 fer bara að Chimaque
  • 054 fer bara að Iglesia de Agua García

Engin áhrif á flug

Eldarnir hafa engin áhrif haft á flugferðir til og frá Tenerife og eru ekki nálægt aðal ferðamannasvæðum. Það eru um 50 km að Adeje svæðinu, Amerísku ströndinni og flugvellinum. Hægt er að fylgjast með komum og brottförum á heimasíðu flugvallarins „okkar“ TFS.

Orsök eldanna

Skógareldar eru algengir á Tenerife og það má búast við að slökkvistarfi ljúki á nokkrum dögum. Það hafði verið búist við að skógareldar myndu kvikna í kjölfar hitabylgju sem var í vikunni á undan, en þeir byrjuðu 15. ágúst. Í fyrstu var líklegasta orsökin talin sú, að hitabylgja og miklir vindar hefðu valdið því að það kviknaði í afar eldfimum furutrjám og skraufþurrum gróðri. En seinna var tilkynnt að þetta hefði verið íkveikja.

Sagt var að eldarnir hefðu náð svona mikilli útbreiðslu vegna þess sem kallað er 30-þrennan; hiti yfir 30°, raki minna en 30%, vindur yfir 30 km/klst (8 m/sek).

Eldarnir urðu fljótt stjórnlausir og hafa nú gleypt í sig um 12.000 hektara furuskóg á 84 km svæði. Yfir 26.000 manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín af öryggisástæðum eða hefur verið fyrirskipað að halda sig inni. Íbúum á sumum svæðum hefur verið leyft að fara aftur heim.

Eldarnir eru hjá rauða merkinu. Hinum megin á eyjunni eru ferðamannasvæðið og flugvöllurinn (TFS).

Svæði í hættu

Eldarnir kviknuðu á nokkrum stöðum á norðausturhluta Tenerife. Þeir nálgast svæðið fyrir utan höfuðborgina, Santa Cruz, en færast nú bæði í norður og austur. Santa Cruz er þó ekki í hættu. Til að byrja með voru þeir að mestu leyti í skógivöxnum hlíðum fyrir ofan hraðbrautina við Candelaria og Arafo, meðal annars við bæinn Igueste de Candelaria, og svæðin El Rosario, La Esperanza, Santa Úrsula og La Victoria. En nú ná þeir líka efst í Orotava-dalinn, fyrir ofan La Florita svæðið. Önnur svæði sem hafa bæst við eru Güímar (þar sem píramídarnir eru), La Matanza, El Sauzal, Los Realejos, og Tacoronte. Mjög erfitt er fyrir slökkvilið að komast að eldunum en herinn hefur sent sérútbúnar flugvélar til að aðstoða við að ná tökum á eldunum.

Uppfært 18.8.: Dregið hefur úr útbreiðslu eldsins á Candelaria-Arafo svæðinu (norðaustur).

Kort af norðaustur-Tenerife

Lokaðir vegir

Svæðin þar sem eldar loga eru í öruggri fjarlægð frá ferðamannasvæðinu sem flestir Íslendingar dvelja á, Amerísku ströndinni og Adeje. En fólk gæti lent í töfum ef farið er til höfuðborgarinnar Santa Cruz eða La Laguna. Einu vegirnir sem hafa lokað eru vegirnir upp í hlíðar El Teide-þjóðgarðsins, þar á meðal þessir:

❌ TF-24 (La Esperanza)
❌TF-21 norður (La Orotava)
❌TF-21 suður (Vilaflor)
❌TF-38 (Chío, Guía de Isora)

Útsýnisstaður sem brann í nótt

Þekkt kennileiti

Í nótt brann einn þekktasti útsýnisstaðurinn á Norður-Tenerife; Chipeque í Santa Úrsula. Á innfelldu myndinni er skjáskot sem meðlimur almannavarna tók í nótt.

La Orotava þekkja margir Íslendingar en það er fallegi, gamli bærinn í fjallshlíðinni fyrir ofan Puerto de la Cruz. Bærinn sjálfur er ekki í hættu á þessari stundu. Það sama gildir um strandbæinn Candelaria, þar sem hin fræga basilíka er. Athugið að það er ekki sami bær og Igueste de Candelaria.

Eldarnir nú eru á svipuðum slóðum og gróðureldarnir 2020. Þótt gróðureldar séu algengir á Kanaríeyjum þá eru þetta sagðir vera verstu eldar í meira en 40 ár.

Myndband sem sýnir skógareldana á Tenerife