Hitaviðvörun fyrir Kanaríeyjar

Hitaviðvörun fyrir Kanaríeyjar

Gefin hefur verið út hitaviðvörun fyrir Kanaríeyjar dagana 10.-14. ágúst. Hámarks hitaviðvörun gildir fyrir alla hluta Tenerife nema norður (sjá mynd). Allt að 39° hita er spáð þessa viku og um helgina. (Uppfært: Athugið að spáð er allt að 41° hita á Amerísku ströndinni þann 11. ágúst.)

Hitinn fylgir sandstormi frá Sahara eyðimörkinni, sem er algengur viðburður á Kanaríeyjum. Það er búist við að sandstormurinn verði dagana 10. og 12. ágúst, og að hitinn byrji að lækka á sunnudag eða mánudag.

Á Norður-Tenerife er gul hitaviðvörun þessa sömu daga. Þar er spáð um 5° lægri hita en fyrir sunnan.

Áhrif á heilsu

Fólki með viðkvæm öndunarfæri er ráðlagt að halda sig innandyra meðan sandstormurinn gengur yfir.

Í þessum hita er mjög mikilvægt að drekka vökva með söltum (electrolytes). Mikil vatnsdrykkja á hreinu vatni getur komið ójafnvægi á sölt í líkamanum og því mæla læknar með að drekka einnig drykki eins og Powerade og Gatorade. Þá má ekki drekka meira en 1 lítra af vatni á klukkustund.

Ferðafólk sem er óvant hita finnur yfirleitt mest fyrir þessu veðri. Hér eru nokkur ráð til að líða sem best í mesta hitanum:

  • Drekka nóg
  • Forðast sólina milli kl. 11-16
  • Vera í léttum fatnaði
  • Nota siesta – rólegheit innandyra í mesta hitanum
  • Vera á loftkældum svæðum
  • Takmarka útiveru og áreynslu

Hætta á gróðureldum

Tenerife hefur ekki verið að sjá svipaðar hitatölur og hafa verið í Suður-Evrópu í sumar, heldur hefur hitinn verið svipaður og síðustu ár.

Svona miklum hita fylgja oft gróðureldar en þeir hafa yfirleitt engin áhrif á fólk á ferðamannasvæðunum. En ef þið ætlið að skoða El Teide eða fjallaþorp næstu daga, er gott að fylgjast með hvort einhverjir gróðureldar séu á svæðinu.

Hér er hægt að lesa meira um sandstorma, öðru nafni calima.