Eyðimerkurstormur á Tenerife

Eyðimerkurstormur á Tenerife

Af og til gengur eyðimerkurstormur, eða sandstormur, yfir Kanaríeyjar. Það er í daglegu tali kallað calima og því fylgir yfirleitt mikill hiti. Sandstormurinn hefur meðal annars átt það til að raska flugi en það gerist þó ekki alltaf. Eflaust muna einhverjir eftir því þegar miklar tafir urðu á flugi árið 2020, en þá var yfir 200 flugferðum seinkað eða aflýst til og frá eyjunum. Það hafði áhrif á ferðir um 20.000 farþega, þar á meðal Íslendinga. Flugvellinum á Gran Canaria var lokað tímabundið og mikil röskun var á flugi frá báðum flugvöllum Tenerife, suður og norður. Einhverjir þurftu að lenda á Fuerteventura í staðinn, en sú eyja er næst Afríku, við hliðina á Gran Canaria. Stormurinn hafði líka áhrif á karnivalið þetta ár og var hluta af dagskrá helgarinnar aflýst, enda fer karnivalið að mestu fram utandyra.

Ef tafir verða á flugi meðan calima gengur yfir, er farþegum bent á að fylgjast með fréttum frá sínu flugfélagi. Hér er heimasíða flugvallarins á Suður-Tenerife (TFS).

Sahara-eyðimörkin vildi líka fara til Tenerife. Mynd Canarias 7.

Calima

Þetta veðurfyrirbæri kallast calima á spænsku. Það fylgir því hærri hiti og rok, en calima er almennt hættulaust. Það gengur oftast yfir á 1-3 dögum. Calima er sérstakt veðurfar sem fylgir yfirleitt vetrinum en er þó ekki mjög oft yfir árið. Árið 2020 upplifðu íbúar Kanaríeyja kröftugasta calima síðan 2002 en þá þurfti líka að fella niður fjölmörg flug, bæði vegna sandmisturs og roks.

Venjulega er fólki með öndunarfærasjúkdóma ráðlagt að halda sig inni á meðan calima gengur yfir og fólk hefur getað hagað sér eins og þegar það er sandrok á Íslandi. En þegar calimað verður óvenju slæmt er fólki ráðlagt að halda sig inni þar til loftgæðin lagast.

Fjölmörg útköll voru vegna stormsins þetta ár og mældust vindhviður á Tenerife allt að 120 km/klst (33 m/s). Það kallast ofsaveður á Íslandi.

Viðtal: Hefði frekar búist við því að það yrði ó­fært í Keflavík en á Tenerife

Meira um veðrið á Tenerife hér.