Bætur ef flugi er seinkað eða aflýst

Ýmsar ástæður geta legið að baki þess að flugi er seinkað eða aflýst. Til dæmis getur það verið vegna vélarbilunar, skemmda á flugbraut eða óveðurs. Eða vegna þess að vélin sem fljúga á með hefur tafist úr fyrra flugi. En það fer einmitt eftir ástæðunni hvort farþegar eigi rétt á bótum eða ekki.
Það er alltaf best að byrja á að hafa samband við sitt flugfélag.
Hvenær áttu rétt á bótum?
Ef flugi seinkar um 2 tíma eða meira, geta farþegar átt rétt á skaðabótum. Og til viðbótar geta þeir líka átt rétt á þjónustu meðan beðið er eftir að vélin fari í loftið.
Seinki fluginu yfir nótt, gætirðu átt rétt á hótelgistingu og ferðum á hótelið.
Ef þú missir af flugi vegna þess að því var flýtt með stuttum fyrirvara, gætir þú átt rétt á bótum.
Ef þú missir af tengiflugi vegna þess að fyrra fluginu seinkaði, gætir þú átt rétt á þjónustu. En bara ef tengiflugið var bókað í gegnum fyrra flugfélagið.
3 tíma seinkun eða meira
Þumalputtareglan er sú að farþegar eigi rétt á bótum ef lent er meira en 3 tímum eftir áætlaðan komutíma. Komutími er tíminn sem dyrnar að flugvélinni eru opnaðar, ekki lendingartími. (*Athugið að þetta á ekki alltaf við.)
5 tíma seinkun
Farþegar geta átt rétt á endurgreiðslu flugs eða að fá annað flug bókað. (*Athugið að þetta á ekki alltaf við.)
*Hvenær áttu EKKI rétt á bótum?
Ef um er að ræða seinkun á flugi eða því er aflýst vegna einhvers sem flugfélagið hefur enga stjórn á, getur bótaréttur þinn fallið niður. Þetta eru atvik eins og óveður, verkföll, stríð, hryðjuverk og þess háttar.
Aðstoð við að kanna bótaskyldu
Á vef Icelandair er hægt að sækja um bætur eða endurgreiðslu á útlögðum kostnaði: Bætur og kröfur.
Á vef Play er hægt að sækja um bætur og skoða reglurnar: Röskun á flugi.
Vefurinn Flugbætur getur aðstoðað við að kanna hvort þú eigir rétt á skaðabótum, með einföldu umsóknarferli.

Reglurnar og upphæð bóta
Á vef Samgöngustofu á Island.is, Truflun á flugi, er farið nánar í reglurnar. Þar er einnig hægt að sjá nýjustu upplýsingar um upphæð bóta og tegund þjónustu sem flugfarþegar geta átt rétt á.
Þessar reglur gilda um íslensk flugfélög.