Veðurfar á Tenerife

Veðurfar á Tenerife

Ferðamannasvæðið á Adeje-svæðinu og Amerísku ströndinni var byggt í hálfgerðri eyðimörk á 7. áratugnum. Frumkvöðullinn að því var talinn léttgeggjaður, enda varla stingandi strá á svæðinu. Svæðið varð þó fljótt einn vinsælasti áfangastaður Evrópubúa, sem vildu flýja kaldan vetur.

Öfugt við önnur sólarlönd Evrópu, þá er dýrasti tíminn á Tenerife á veturna (high season). Þá eru hótelin dýrari og erfiðara að fá ódýrt flug. En um leið og hlýnar í Evrópu, eykst samkeppnin og ferðafólk dreifist á fleiri staði en Tenerife.

Fjöllin á miðri eyjunni hafa áhrif á veðrið. Þau skipta Tenerife upp í ólíka hluta, veðurfarslega séð. Fyrir norðan er oftar rigning eða skýjað og meiri raki. Fyrir sunnan er sólríkara og landslagið er þurrara.

Dagsbirtan er einn helsti kosturinn við að dvelja á Tenerife að vetri til. Sólin er komin á loft um 7:45 alla daga og sest um 7 á kvöldin.

Veður-öpp

Gott er að ná sér í veður-app í símann áður en farið er til Tenerife. Til dæmis Windy, AccuWeather eða annað. Öppin eru flest ókeypis. Þau eru stillt þannig að þau sýna veður fyrir svæðið sem síminn er á. Með því að nota app, er hægt að fylgjast með veðri og veðurspám á mjög einfaldan hátt.

Veðrabreytingar

Veðrið á Tenerife hefur eitthvað verið að breytast síðustu árin, eins og annars staðar í heiminum. Til dæmis hafa komið hitabylgjur á óvenjulegum árstímum. Og janúar 2024 var heitasti janúar í 63 ár.

En þrátt fyrir þetta er enn gott að vera á Tenerife á þessum árstíma. Enda er hitinn yfirleitt undir 30°, sem flestum finnst bara þægilegt.

Meðalhiti eftir mánuði

Það er góð ástæða fyrir því að Tenerife er kölluð eyja hins eilífa vors. Hitastigið er nokkuð jafn allt árið, í kringum 25°C. Það getur verið aðeins svalara á nóttunni, sérstaklega yfir háveturinn. En munurinn á Íslandi og Tenerife er sá, að hávetur á Tenerife er ekki nema um 3 mánuðir; desember – febrúar.

Þessi tafla sýnir meðalhita yfir venjulegt ár en það útilokar ekki óvæntar hitabylgjur.

Bláu reitir: Mánuðir. Gulu reitir: Meðalhiti yfir daginn.

Sjávarhiti

Umhverfis Kanaríeyjar er Atlantshafið. Hlýir hafstraumar frá Afríku gera það að verkum að hafið er hlýtt þótt lofthiti sé ekki mjög hár. Á þessari töflu sést meðalhiti sjávar eftir árstíma.

Meðalhiti sjávar
Náttúran blómstrar í Puerto de la Cruz

Rigningardagar

Þessi mynd sýnir heildarúrkomu yfir árið. Vinstra megin er útskýring á litunum, sem tákna millimetra. Eins og sést, rignir meira á Norður-Tenerife. En þess vegna er líka áberandi fallegri gróður á norðurhlutanum.

Rigning yfir heilt ár. Tafla frá ResearchGate: Pórtoles, Javier & Torres, Luis & Ribalaygua, Jaime & Monjo, Robert & García-Angulo, Carlos. (2011).

Calima sandrok

Hitabylgjum og calima (sandroki frá Sahara) fylgja stundum engisprettur. Þær láta fólk í friði og halda sig við gróðurinn.

Calima stendur yfirleitt yfir í 2-5 daga. Sandrokið er mismikið og oftast hefur það lítil áhrif.