Suður-Tenerife

Suður-Tenerife

Aðal ferðamannasvæðið er á suðurhluta Tenerife en oftast er talað um „suður Tenerife.“ Suðurhluti eyjunnar er sólríkari og þar rignir sjaldan, svo landslagið er þurrara en fyrir norðan. Það er nokkuð jafnt hitastig allt árið. En þó það sé hlýrra á sumrin, verður yfirleitt ekki of heitt, því það er ekki mikill raki. Loftslagið er heilsubætandi. Það hentar vel börnum jafnt sem fullorðnum og er sérstaklega gott til að minnka vöðvabólgu og liðverki.

Heitasti árstíminn er venjulega ágúst og sá kaldasti janúar. (Janúar á Tenerife er eins og gott sumar á Íslandi.) Vegna veðrabreytinga hefur þetta þó eitthvað færst úr skorðum, með hitabylgjum á óvenjulegum árstímum. Þær standa samt yfirleitt ekki lengi í einu; bara örfáa daga.

Flugvöllurinn sem er lent á þegar komið er frá Íslandi er Tenerife Sur (TFS). Hann kallast líka Reina Sofia (Sofia drottning).

Los Cristianos – Gamli bærinn (Arona)

Gamli bærinn Los Cristianos er eins og spænskir bæir eiga að vera; mjóar götur, gömul bókabúð, vörur úti á götu og nóg af veitingastöðum þar sem hægt er að setjast niður og skoða mannlífið. Hér er rólegt andrúmsloft, enda meirihluti íbúa Tenerifebúar.

Pétur Pan-skipið í Los Cristianos

Ströndin Playa de Los Cristianos er mjög fín (sú besta segja sumir) og við hana eru margir veitingastaðir. Rétt hjá ströndinni eru undirgöng og þar heldur göngustígurinn áfram að Vistas ströndinni. Þaðan er hægt að ganga yfir að Amerísku ströndinni (rúmlega hálftíma labb).

Playa de las Américas (Arona)

Ameríska ströndin er einn vinsælasti gististaður Íslendinga, hvort sem um er að ræða fjölskyldur eða fólk sem vill skoða næturlífið. Þetta svæði var sérstaklega byggt upp sem ferðamannasvæði á 7. áratugnum og þess vegna er enginn gamall bæjarhluti hér. Göngustígurinn á myndinni hér liggur á milli Amerísku strandarinnar og Los Cristianos. Hann liggur að mestu meðfram Vistas-ströndinni, sem er ein lengsta strönd Tenerife. Á leiðinni eru fjölmargir veitingastaðir þar sem er hægt að taka sér pásu og virða fyrir sér mannlífið. Það er gott aðgengi fyrir hjólastóla alla þessa leið.

Pýramídinn þar sem Hard Rock er núna – Myndin er tekin fyrir breytinguna

Laugavegurinn

Svæðið næst Vistas-ströndinni er þar sem Parque Santiago-hótelin eru. Þar er einnig verslunargatan Avenida de Las Américas eða „Laugavegurinn,“ með marmaralögðum gangstéttum (sem eru skúraðar snemma á morgnana), og Safari-verslunarmiðstöðin. Á efri hæðinni í Safari eru nokkrir góðir veitingastaðir, meðal annars ítalski staðurinn Bianco. Hinumegin við götuna er Hard Rock Cafe. Verslanir á svæðinu eru meðal annars Zara, Stradivarius og Bershka.

Laugavegurinn

Margir af bestu veitingastöðum Tenerife eru á Amerísku ströndinni, bæði við sjóinn og í hverfunum aðeins ofar. Los Cristianos og Ameríska ströndin tilheyra Arona-svæðinu.

Beint á móti Parque Santiago III-hótelinu er mjög flottur mínígolfvöllur. Á bak við hótelið er göngugata sem tengir bæði Los Cristianos og Adeje-svæðið. Hún liggur meðfram allri Amerísku ströndinni.

Booking.com

Torviscas, Fañabe og El Duque (Adeje)

Þessir staðir eru mjög vinsælir meðal Íslendinga. Sumar af bestu ströndum eyjunnar eru hér og andrúmsloftið er rólegra en á Amerísku ströndinni. Þarna eru fjölmörg hótel og fallegar strendur, sem heita sama nafni og staðirnir. Þetta tilheyrir Adeje-svæðinu.

Siam Park-vatnsrennibrautagarðurinn og Siam Mall-verslunarmiðstöðin eru rétt fyrir ofan hraðbrautina. Nokkur af flottustu hótelum eyjunnar eru við El Duque-ströndina. Hér eru góðar strendur og veitingastaðir, golfvellir og margt fleira. Adeje-svæðið er rólegra en Ameríska ströndin og börn og fólk á öllum aldri ætti að finna eitthvað að gera hér.

Á 14. öld var Adeje höfuðstaður eins konungsdæmis Guanche-fólksins, sem voru frumbyggjar Tenerife en nú er svæðið eitt stærsta ferðamannasvæði Kanaríeyja.

Íslendingabarinn er á Amerísku ströndinni, rétt hjá Adeje-svæðinu. Annar íslenskur staður er Bambú bar & bistro.

Það er hægt að ganga meðfram sjónum yfir á Amerísku ströndina, eftir göngustíg sem tengir ferðamannasvæðin.

La Caleta

La Caleta er lítill, rólegur bær rétt fyrir ofan El Duque-svæðið. Hann er tilvalinn fyrir fólk sem vill komast frá mesta ferðamannaflaumnum en hafa samt aðgang að strönd og góðum veitingastöðum í göngufæri.