Eldgosið og áhrif á flugferðir
(Uppfært í janúar 2022: Gosinu er formlega lokið.)
Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá mörgum að það er eldgos á Kanaríeyjum. Eyjan sem um ræðir er La Palma, en hún er norðvestanmegin við Tenerife (sjá kort). Það sést til hennar frá sumum stöðum á norður- og vesturhluta Tenerife. Ekki samt rugla henni saman við litlu eyjuna sem sést frá ferðamannasvæðinu (Amerísku ströndinni og Adeje), en hún heitir La Gomera.
Öskufall
La Palma er í 150 km fjarlægð frá Tenerife og er því í öruggri fjarlægð. Eitthvað hefur verið um öskufall í þessu eldgosi en enn sem komið er hefur það ekki haft nein áhrif á flugferðir til og frá Tenerife eða Kanarí (Gran Canaria). Flugvellinum á La Palma var hins vegar lokað tímabundið um helgina vegna ösku.
Eyjan er mjög lítil, bara á stærð við höfuðborgarsvæði Íslands, og flugvöllurinn er aðeins í 15-20 km fjarlægð frá eldfjallinu, Cumbre Vieja. Það þyrfti því aðeins meira til að öskufall hefði áhrif á flugvelli hinna eyjanna.
Vegna þess hvað hlíðar eldfjallsins eru brattar, hefur hraun runnið frekar hratt niður fjallshlíðarnar, eða á um 4 km hraða. Þegar þetta er skrifað er verið að bíða eftir að hraunið nái út í sjó. Þegar, og ef, það gerist er búist við gasmengun, ásamt sprengingum þegar 1000 gráðu heitt hraunið rennur í sjóinn. Hvort meira öskufall komi til með að fylgja því á eftir að koma í ljós, en að svo stöddu hefur gosið ekki haft áhrif á flug utan La Palma.
„Eldgosatúristar“ hafa verið að þvælast fyrir lögreglunni, sem segir að þetta sé ekki rétti tíminn fyrir ferðamenn. Það á reyndar bæði við um ferðamenn og íbúa La Palma, sem hafa margir hverjir reynt að sjá gosið úr sem minnstri fjarlægð.
Brottflutningur íbúa
Íbúar sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín vita margir hverjir ekki hvort hraunið hafi náð að gleypa heimili þeirra, hvort húsin hafi brunnið, skemmst, eða hvort þau hafi sloppið. Ein kona sagði að íbúar hefðu fengið 1 klukkustund til að sækja það nauðsynlegasta í hús sín, áður en þeim var gert að yfirgefa svæðið á ný. Meðal þess sem fólk sótti fyrst voru ljósmyndir. Margir íbúanna eru fæddir á svæðinu og fjölskyldur þeirra hafa búið þar nokkrar kynslóðir. Þetta er því mikið högg fyrir lítið samfélag.
La Palma og Cumbre Vieja
- Íbúar eru 85.000
- Cumbre Vieja gaus síðast 1971 (50 ár) og þar áður 1949
- Um 6.000 manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín
- Meira en 500 heimili og atvinnuhúsnæði eru komin undir hraun
- Hraunveggurinn er yfir 6 metra hár og sums staðar allt að 15 metrar
- Bananaakrar hafa eyðilagst, en bananar eru mikilvægir fyrir efnahag La Palma
- Á La Palma og Tenerife eru virkustu eldfjöll Kanaríeyja
Flugferðir til Kanaríeyja
Ef þið eruð á leiðinni til eða frá Kanaríeyjum og fréttir fara að berast af öskufalli, er einfaldast að hafa samband við sitt flugfélag, til að spyrjast fyrir um hvort það hafi áhrif á flugferðir. Það er einnig hægt að fylgjast með tilkynningum á heimasíðu flugvallarins á Suður-Tenerife, TFS, Aena.es.
Fyrir & eftir myndir af svæðinu
Á heimasíðu El País er hægt að sjá fyrir & eftir myndir af svæðinu sem hraunið hefur runnið yfir. (Síðan opnast í nýjum glugga.) Á miðri myndinni er stika sem er hægt að draga til hægri og vinstri. Vinstra megin er mynd af svæðinu frá 2020. Myndin hægra megin er ný.