Um Tenerife
Paradísareyjan Tenerife hefur laðað að ferðamenn síðan 1890. Hlýtt veðurfar allt árið um kring gerir það að verkum að eyjan er sérstaklega eftirsótt yfir vetrartímann, hvort sem fólk vill slaka á í sólinni, versla, stunda útivist eða fara á tapasnámskeið. Fjölbreytt náttúran gerir eyjuna að draumi ljósmyndarans og útivistarfólks. Tenerife er mjög barnvænn staður svo allir aldurshópar ættu að finna eitthvað við hæfi.
Oftast er talað um Tenerife sem tvo hluta; norður og suður. Aðal ferðamannasvæðin eru á suðvesturhlutanum og þar er jafnframt hlýrra á veturna og fleiri sólardagar. Munurinn á veðri milli norður og suður sést greinilega á gróðrinum, þar sem suðurhlutinn er þurr en náttúran blómstrar fyrir norðan. Skýringin á þessum mun eru fjöllin á miðri eyjunni og þá sérstaklega El Teide, sem er þriðja stærsta eldfjall heims. Báðir eyjarhlutar hafa sína kosti og vonandi náið þið að sjá sem mest af eyjunni. Það tekur innan við klukkustund að keyra frá amerísku ströndinni og norður þannig að flestir ættu að hafa tíma til að skoða sig um og kynnast því sem Tenerife hefur upp á að bjóða.
Tenerife á sér langa og áhugaverða sögu þar sem við koma m.a. Kristófer Kólumbus, karnival og frumbyggjarnir Guanches, sem voru hávaxnir og ljósir yfirlitum. Hver veit, kannski voru þeir forfeður Íslendinga og einhvern veginn lentum við hin á rangri eyju. En það er ekki of seint að bæta úr því!