Fyrsta daginn
Fólk þolir hita misjafnlega vel og margir hafa sína föstu rútínu þegar farið er til hlýrri landa. Börnin gætu þurft aukaskammta af ís til að kæla sig niður. Hér eru nokkur atriði sem er gott að hafa í huga.
Best er að plana sem minnst fyrsta daginn, meðan þið venjist hitanum. Þetta á sérstaklega við um vetrartímann, þegar hitamunurinn á Íslandi og Tenerife getur verið 20-35°C. En það getur líka átt við um júlí og ágúst, sem er heitasti tíminn á Kanaríeyjum. Búið ykkur undir að það getur verið eins og að labba á vegg þegar þið komið út úr flugstöðinni.
Það er mjög slæm hugmynd að fara strax á ströndina fyrsta daginn, nema ef þið hafið verið mikið í sól rétt fyrir ferðina. Húðin þarf að venjast sólinni smám saman. Það er heldur ekkert gaman að þurfa að vera í bol það sem eftir er ferðarinnar. Kaldur sjórinn blekkir, svo þótt fólk sé að passa sig, áttar það sig oft ekki á því hvað húðin er orðin heit fyrr en of seint.
Gott að kaupa strax
Nauðsynlegt er að kaupa vatn og sólarvörn sem fyrst, annað hvort á flugvellinum eða í nálægri búð þegar þið komið á hótelið/íbúðina. Það er líka gott að eiga after sun eða aloe vera gel til að kæla húðina að kvöldi.
Sumum finnst gott að eiga bitvörn; after bite og/eða repellent til að forðast moskítóbit. Moskítóflugur eru á Tenerife allt árið (mest á sumrin) en það getur farið eftir svæðum hvar þær eru. Margir rekast ekki á eina einustu moskítóflugu allan tímann, á meðan aðrir eru útbitnir. Það er líka hægt að nota bananahýði á bit.
Þá er gott að vera með plástra til að forðast að fá blöðrur undan núningi við skó við mikið labb, sérstaklega ef þið eruð ekki vön að ganga langar vegalengdir eða eruð í nýjum skóm.
Kranavatn og vatnsbrúsar
Best er að kaupa vatn í stórum brúsum (6-8 lítra) og nota það til að fylla á smærri drykkjarflöskur. Þess vegna getur verið sniðugt að hafa með sér brúsa að heiman, eða kaupa úti, til að spara plastið.
Athugið að velja vatn með sem minnstu eða engu klóri (chloride). Til dæmis er Font Vella mjög svipað íslenska vatninu. Í sumum íbúðum eru sérstakar síur fyrir kranavatn. Þá er hægt að nota kranavatnið til að fylla á eigin flöskur áður en farið er út í daginn.
Kranavatn er yfirleitt ekki drukkið nema það sé síað. Samt er allt í lagi að nota ósíað kranavatn til að bursta tennurnar.
Gjaldmiðill, rafmagn og fleira
Kanaríeyjar tilheyra Spáni og Tenerife er stærst eyjanna 8. Tungumálið er spænska og gjaldmiðillinn evra €. Íbúar Tenerife eru um 966.000. Flatarmál Tenerife er 2.034 km2 (Ísland er 103.000 km2).
Á veturna er sami tími og á Íslandi en á sumrin munar klukkustund.
Rafmagn og innstungur eru alveg eins og á Íslandi. Það má því stinga síma, tölvu, og öðrum raftækjum með íslenskri snúru, beint í samband.
Þegar greitt er með korti er oftast hægt að velja á posaskjánum hvort greitt er í evrum eða íslenskum krónum. Veljið alltaf evrur því annars getur reiknast hærra gengi og varan verður dýrari fyrir vikið. Passið líka að láta kortið aldrei úr augsýn. Almennur söluskattur á vörum er 7%. Hér er hægt að lesa meira um verðlag á Tenerife.
Litlar eðlur eru í flestum görðum. Þær eru hræddar við fólk en halda flugum í burtu, þannig að þær eru frábærir nágrannar. Það má gefa þeim að borða.
Hér er stutt samantekt yfir bílaleigur og umferðarreglur, sem eru ekki alltaf eins og á Íslandi.
Flest hótel eru með barnasvæði. Hér geturðu séð þau sem skara fram úr og hafa fengið flest meðmæli.
Suður – norður – Ef þig langar að þekkja muninn og skoða þig aðeins um, er gott að byrja hér.