La Orotava
Þessi fallegi bær er í fjallshlíðinni fyrir ofan Puerto de la Cruz, í Orotava-dalnum. Gamli bærinn er vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Hingað kemur fólk meðal annars til að skoða Casa de los Balcones (hús svalanna) eða kirkjuna Nuestra Senora de la Concepción. Á vorin er bærinn undirlagður af listaverkum úr blómum, á blómahátíðinni Corpus Christi.
Göturnar geta verið brattar í La Orotava. Hér eru hellulagðar götur og fallegar byggingar og plöntur hvert sem litið er. Takið eftir spænsku svölunum sem eru á gömlu húsunum í bænum.
Handverk
Í Casa de los Balcones er meðal annars hægt að kaupa dúka af ýmsum stærðum og gerðum. Það er aðgangseyrir inn á safnið sem er í húsinu en það er hægt að ganga um svæðið þar sem minjagripir og aðrar vörur eru til sölu. Þarna er alls konar handverk til sýnis og sölu.
Ekki er vitað hver uppruni nafns La Orotava er en talið er að það sé komið frá frumbyggjum Tenerife, Guanches, sem kölluðu svæðið Arautaba eða Arautápala.
Alexander von Humboldt
Landkönnuðurinn Alexander von Humboldt kallaði La Orotava-dalinn fallegasta dal á jörðu. Mirador de Humboldt í La Orotava er, eins og nafnið gefur til kynna, nefnt í höfuðið á honum og þar er að finna styttu af honum að horfa yfir dalinn.
Það eru veitingastaðir og kaffihús víða um gamla bæinn. Við mælum líka með að stoppa á veitinga- og útsýnisstaðnum Mirador de Humboldt en þar er hægt að ná góðum myndum yfir Orotava-dalinn og Puerto de la Cruz.
Hvernig er best að komast til La Orotava?
Til að komast til La Orotava er hægt að fara eftir hraðbrautinni fram hjá Santa Cruz eða í gegnum El Teide-þjóðgarðinn. Ef farið er eftir hraðbrautinni er byrjað á að fylgja skiltunum til Puerto de la Cruz, áður en skilti að La Orotava fara að birtast. Ef efri leiðin er farin, í gegnum El Teide-þjóðgarðinn, þá komið þið inn í La Orotava rétt hjá gamla bænum.
Rétt fyrir ofan La Orotava er safnið Pinolere ethnographic museum and park, þar sem farið er yfir sögu eyjunnar og frumbyggjanna, Guanches. Nánari upplýsingar hér.