Áramótaskaupið, Pallaball og flugeldasýningar

Áramótaskaupið, Pallaball og flugeldasýningar

Áramótin

Það er líf og fjör á Tenerife um áramót. Veitingastaðir, skemmtistaðir og pöbbar eru opnir og það verða flugeldasýningar á fjölmennustu stöðunum. Mörg hótel eru líka með sína eigin dagskrá. Ef þið viljið vera fjarri stuðinu í bænum, er líka hægt að hafa sína einkaveislu úti í garði eða á svölunum, enda veðrið yfirleitt of gott til að hanga inni.

Áramótaveðrið

Á helstu ferðamannasvæðunum, Adeje, Arona (Amerísku ströndinni) og Los Cristianos, er spáð sól og 22-23° hita yfir daginn og um 19° um kvöldið. Svipað veður verður fyrir norðan, meðal annars í Puerto de la Cruz.

Í Los Cristianos gæti rignt eitthvað seint á gamlárskvöld. Fyrri hluta nýársdags gæti rignt smávegis í Adeje og Puerto de la Cruz.

Eitt það besta við að vera á Tenerife í desember og janúar er birtan. Sólin er mætt um 8 á morgnana og sólsetur er um 18.30. Góður skammtur af D-vítamíni þar.

Flugeldasýningar & áramótapartí

Gamlárskvöld á Tenerife

Á gamlárskvöld verður fínt skyggni til að sjá flugeldasýningar, ef þið verðið á svæði þar sem þær verða í boði. Flugeldasýningar verða í flestum bæjum og borgum, þar á meðal í Adeje og á Amerísku ströndinni.

Hér verða stærstu partíin haldin.

Stærstu áramótapartíin á gamlárskvöld

Miðasala hjá Tenerife ferðir (Svali og co.)
  • Palla ball á Tenerife, Costa Adeje. Miðasala og nánari upplýsingar hjá Tenerife ferðir. Barnaskemmtun seinnipartinn.
  • Adeje: Plaza de España (byrjar um 11.30 og fram á morgun). Plötusnúðar og stuð. DJ Chris Hernández og DJ Santy Pérez, Toke Latino og fleiri.
  • Los Cristianos: Plaza del Pescador (byrjar um 10). Lifandi tónlist og plötusnúðar. DJ David Pérez, DJ Carlos Delgado, DJ Pablo Barrios og DJ Renzzo El Selector.
  • Los Gigantes: Plaza Buganvilla, (byrjar um 9 og endar um morguninn). 8 Smile, Grupo Paraiso og fleiri.
  • Puerto de la Cruz: Plaza del Charco, í miðbænum, (byrjar um 11). DJ Richard, Swing Latino og fleiri.

Áramótaskaupið

Það verður hægt að horfa á áramótaskaupið á Tenerife. Það verður í opinni dagskrá og hægt að horfa á það á RÚV appinu. Appið er ókeypis og það er hægt að sækja það á Play Store (fyrir Android tæki) eða App Store (fyrir Apple tæki). Hér eru ítarlegri leiðbeiningar á vef RÚV.

Það verður hægt að horfa á skaupið hvar sem er í heiminum

Það verður líka sérstök áramótadagskrá hjá Íslendingabarnum Nostalgía. Þau ætla meðal annars að sýna áramótaskaupið. Best er að hafa samband við þau til að athuga hvort það verði laust hjá þeim.

Tenerife.is óskar ykkur öllum gleðilegs nýs árs og þakkar fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða.

Áramótakveðja,

Berglind ritstýra