Að flytja úr landi
Í þessum pistli er aðallega fjallað um flutning til Tenerife. En flest sem er talið upp hér, á einnig við um flutning til annarra landa. Hvort sem verið er að íhuga brottflutning vegna náms, vinnu eða bara forvitni um heiminn, þá finnið þið vonandi eitthvað hér sem hjálpar.
Það getur verið spennandi tilhugsun að flytja til Tenerife, vakna við sólskin eða dagsbirtu nánast alla daga og eyða stærstum hluta dagsins úti við. Mörg okkar látum okkur dreyma um að búa á Tenerife, Kanaríeyjum eða Spáni meðan aðrir skilja ekki hvað er svona spennandi við það. En þetta snýst ekki bara um að liggja í sólbaði, heldur að víkka sjóndeildarhringinn, upplifa þægilegra loftslag og jafnvel minni streitu.
Ákvörðunin
Það erfiðasta við að flytja út er sjálf ákvörðunin um að flytja. Enda könnumst við flest við óttann við hið óþekkta, sem fylgir stórum breytingum. En eftir að ákvörðun hefur verið tekin, eru næstu skref furðu létt í samanburði þótt þau geti auðvitað tekið á.
Stærsti þröskuldurinn er oftast tekjuhliðin; hvernig á að lifa af í nýju landi, sérstaklega ef tungumálakunnátta er ekki til staðar? Eða húsnæði; hvar á að búa? Eigið þið börn sem þarf að skrá í skóla? Kannski getið þið unnið fjarvinnu frá núverandi vinnustað eða eruð á eftirlaunum og eruð bara í vandræðum með að velja stað til að búa á.
Gott er að gefa sér góðan tíma í undirbúning. Ef sterkur vilji er til staðar, ætti að vera hægt að leysa hvað sem þarf til að hefja nýtt líf annars staðar.
Hér eru nokkur atriði sem er gott að byrja á
Listi fyrir nýtt upphaf
Mikilvægt er að útbúa lista yfir það fyrsta sem þarf að gera í nýju landi og skrá í forgangsröð. Til dæmis ef það á að byrja á að versla í matinn; hvar er næsta matvörubúð sem er hagstæð? Kemstu þangað gangandi eða í strætó, eða þarftu að leigja bíl? Hvenær og hvaðan viltu panta hann? Helstu matvörubúðir á Tenerife (og Spáni) eru með netverslun. Kannski geturðu flýtt fyrir þér og pantað það nauðsynlegasta áður en þú ferð frá Íslandi og sótt það svo í búðina þegar þú kemur út.
Það sem verður eftir
Það þarf líka að gera plan um hvað þú skilur eftir á Íslandi. Ætlarðu út með búslóðina? Eða setja hluta af henni í geymslu og selja eða gefa annað? Það er dýrt að leigja geymslu í ár eða lengur, fyrir dót sem þig langar kannski ekki að nota aftur. En það er líka dýrt að þurfa að kaupa allt aftur ef þig langar að flytja aftur heim. Leyfðu þér að geyma hvað sem þér þykir vænt um og sem skapar þitt heimili og öryggi. Eða taktu mynd af því, stundum dugar að eiga minninguna á mynd. Finndu þinn meðalveg.
Gott er að skrá niður allt sem þarf að segja upp, eins og síma, hita- og rafmagnsveitu, tryggingum og þess háttar. Ertu með rafræn skilríki fyrir bankann á Íslandi? Þarftu að gefa einhverjum umboð til að sjá um þín mál meðan þú ert úti?
Það sem þarf að sækja um
Eitt það fyrsta sem þarf að skoða eru kröfur sem fylgja því að fá dvalarleyfi eða kennitölu. Ef það er búið að velja borg eða bæjarfélag, þarf að finna út nálægasta staðinn til að sækja um kennitölu eða önnur leyfi sem þarf. Oftast þarf að skrá sig á bæjarskrifstofu til að komast inn í heilbrigðiskerfið og skóla.
Þegar sótt er um spænska kennitölu (NIE) á næstu lögreglustöð, þarf meðal annars að koma með ljósrit af vegabréfi. Sniðugast er að taka nokkur ljósrit af því með út.
Svo þarf að sækja um síma og net. Það er gott að kynna sér hvaða gögn þarf að sýna þegar sótt er um. Og líka kanna hversu lengi þarf að bíða eftir þjónustu eins og nettenginu. Fljótlegast er að sækja um allt sem hægt er á netinu áður en farið er út. Movistar og Vodafone eru helstu þjónustuaðilar með net/ljósleiðara og síma (fibra y móvil).
Listinn
Til að gera lista er hægt að byrja á að gera flokka, eitthvað svona:
Tekjur/vinna | Íbúð | Búslóðin | Aðgangar | Gögn |
Fjarvinna hjá x Finna hlutastarf Vinnuaðstaða | Idealista Tryggingar Rafmagn Sími/net | Panta gám/geymslu x vikum fyrr Taka með: xxx Gefa/selja: xxx Geyma: xxx | Rafræn skilríki Umboð til endurskoðanda Tala við bankann | 4x Ljósrit af vegabréfi Vottorð frá skóla NIE umsókn |
Smám saman bætist við listann, bæði aðalatriði og smáatriði. Undir tekjur/vinna fer allt sem tengist til dæmis fjarvinnu. Þarf að byrja á að fara í Ikea (og finna Ikea), til að kaupa skrifborð og stól fyrir vinnuaðstöðu heima? Eða eru einhver vinnutengd mál á Íslandi sem þarf að koma í hendurnar á öðrum? Hvað sem það er þá fer það á listann. Þannig næst smám saman betri yfirsýn yfir öll litlu atriðin. Þegar allt er skrifað niður, finnst ykkur ekki eins og þið séuð alltaf að gleyma einhverju.
Fjármálin
Listinn verður ekki til á einum degi, enda er margt sem þarf að skoða og velta fyrir sér. Sams konar lista þarf svo að gera fyrir fjármálin. Þar þarf að skrá útborguð laun og draga alla kostnaðarliði frá.
Fyrir kostnað er hægt að nota töfluna með verðsamanburði, sem er hér á Tenerife.is. Þar kemur fram helsti kostnaður við að reka heimili og fjölskyldu. Eins og til dæmis hiti og rafmagn, net og sími, matvara, leiga, líkamsrækt og fleira.
Aðgerðalisti fyrstu dagana
Áður en þið farið út, skiptir miklu máli að gera skriflegt skipulag fyrir fyrstu dagana. Jafnvel þótt það séu bara 2 atriði. (Skrifað á blað sem er auðvelt að finna fyrsta daginn úti, hvort sem það er alvöru blað eða rafrænt.)
Það er svo margt nýtt að hugsa um fyrstu dagana, að skipulag er ekki eitthvað sem er manni efst í huga. Enn betra ef listinn er gerður mánuði fyrir brottför, meðan hausinn er enn nokkurn veginn í lagi.
Dæmi um lista fyrir fyrstu dagana úti:
- Versla mat, vatn, sjampó, sápur og annað nauðsynlegt. Þetta er yfirleitt það fyrsta sem gildir fyrir okkur öll.
- Gleymið ekki rútínunni ykkar (eða búið til nýja), eins og bara að muna eftir að borða eða fá hreyfingu.
- Best er að vera búin að skrá niður heimilisföng, nöfn tengiliða, símanúmer og annað sem þið þurfið, þannig að það sé hægt að byrja strax á því mikilvægasta.
- Það er sniðugt að panta tíma og viðtöl með góðum fyrirvara, ef það á við, svo það sé hægt að afgreiða umsóknir um þjónustu, net, skóla, sjúkraþjálfun eða hvað sem er, fyrstu dagana eftir að þið komið út.
Gott skipulag og yfirsýn er ekki bara til að stytta biðina eftir að fá þjónustu, heldur kemur það í veg fyrir að ykkur fallist hendur þegar þið eruð komin út. Dreifið þessum verkefnum á eins marga daga eða vikur og þið þurfið. Ekki gleyma að borða og hvíla ykkur. Og hafa gaman af þessu í leiðinni.
Ef þið þurfið að fara tvisvar eða þrisvar með pappíra á sama staðinn, lítið bara á það sem æfingu í að rata. Og verðlaunið ykkur svo með einhverju skemmtilegu þegar atriði eru strikuð út af listanum.
Mikilvægast er að hafa góða yfirsýn yfir hvað sem þarf að koma í verk við flutninginn, því það gefur ykkur meira sjálfsöryggi við að takast á við breytingarnar.
Finna vinnu á Tenerife
Það er ekki sjálfsagt að finna strax vinnu við hæfi, þannig að best er að byrja leitina með mjög góðum fyrirvara. Oftast er gerð krafa um að fólk kunni spænsku til að fá vinnu á Tenerife. En vegna þess hvað ferðaþjónusta gegnir stóru hlutverki þar, er stundum nóg að kunna ensku. Mörg alþjóðleg fyrirtæki eru með skrifstofur á Tenerife.
Besta síðan til að leita að vinnu á Tenerife er InfoJobs. Síðan er á spænsku en það er hægt að nota Google Translate til að þýða atvinnuauglýsingar. (Auglýsingarnar eru líka á spænsku þegar það er nóg að tala ensku til að fá vinnuna.) Einnig er hægt að skoða störf í boði á LinkedIn. Á LinkedIn er hægt að leita að störfum eftir svæði, atvinnugrein, menntun og fleiru.
Aðrar leiðir til að leita að vinnu á Tenerife, er að skoða síður fyrirtækja sem þið gætuð hugsað ykkur að vinna hjá. Það eru meðal annars hótel, skemmtigarðar (Loro Parque, Siam Park), tæknifyrirtæki og fleira.
Að læra spænsku
Spænskunám er hægt að byrja strax. Til dæmis með því að skrá sig á spænskunámskeið eða nota Duolingo, sem er ókeypis app fyrir tölvu og síma. Eftir að góðum grunni hefur verið náð í málinu (orðaforða og málfræði), eru flestir sammála um að það hafi tekið um 3 mánuði að byrja að tala nýja málið, eftir að út er komið.
Áður en farið er út, er hægt að æfa sig í að hlusta og tala spænsku á Duolingo. Eða með því að hitta spænskumælandi fólk sem vill læra íslensku, og skiptast á að kenna hvert öðru. (Þannig hittingar eru stundum á kaffihúsinu í Veröld Húsi Vigdísar.)
Það þarf líka að hafa í huga að það eru mismunandi mállýskur á Spáni og Kanaríeyjum. Meira um tungumálið og Duolingo hér.
Það þarf að yfirstíga alla feimni og óöryggi sem fylgir því að læra að tala nýtt tungumál, því um leið og þessi þröskuldur er úr sögunni opnast ný tækifæri fyrir vinnu, vináttusambönd og fleira.
3 mánuðir
Eftir að hafa búið í nokkrum löndum, er mín reynsla sú að það tekur um 3 mánuði að koma sér upp nýrri rútínu í nýju landi. Eftir 3 mánuði er auðveldara að rata um allt. Eftir 3 mánuði ferðu að versla í matinn án þess að hugsa of mikið; þú þekkir þínar vörur. Eftir 3 mánuði kanntu meira í nýja málinu og getur auðveldlega pantað þér mat á veitingastað eða spurt út í fatastærðir í búð. Þú manst að reglan um hringtorgin er öðruvísi en á Íslandi. Þú færð ekki lengur samviskubit yfir að vera inni þegar það er sól úti. Eftir 3 mánuði langar þig ekki lengur að hætta við allt og flytja aftur heim.