Lífið að færast í eðlilegt horf á Tenerife
Nú fer lífið smám saman að færast í eðlilegt horf á Kanaríeyjum en það er gert ráð fyrir einhverjum lokunum fram á miðvikudag. Slökkvilið hefur náð stjórn á eldunum fyrir norðan og flestir íbúanna hafa snúið aftur heim til sín. Það á líka við um íbúa og ferðamenn sem þurftu að yfirgefa bæinn Santa Úrsula vegna gróðurelda og leita í fjöldahjálparmiðstöð Rauða krossins.
Yfirvöld hafa sagt að engin fordæmi séu fyrir svona mörgum eldum í þéttbýli, eins og geysuðu á norðurhluta eyjunnar í gær. Enda hafa eyjarbúar ekki upplifað svona sterkt calima frá árinu 2002. Vindhviður náðu upp í 33 m/s og loftgæðin voru óvenju slæm.
Karnivalið
Karnivalið í höfuðborginni Santa Cruz fer fram á morgun. Það er stóra skrúðgangan sem er aðalviðburður karnivalsins. Nánari upplýsingar um dagskrána er að finna hér.
Flug
Flugvellirnir eru að komast í gang en það má enn búast við seinkunum.
Farþegum er bent á að fylgjast með tilkynningum frá sínu flugfélagi en það er líka hægt að fylgjast með komum og brottförum á heimasíðu flugvallanna (Aena).
Hér er grein á mbl um stöðu mála í dag, 24. febrúar. „Flugvallaryfirvöld ráða ekkert við þetta ástand.“
Rauði krossinn á Tenerife opnaði líka hjálparmiðstöð á flugvellinum Tenerife Sur í gærkvöldi, sem 109 farþegar nýttu sér. Um 300 manns voru í fjöldahjálparmiðstöð Rauða krossins á Norður-Tenerife vegna eldanna um helgina.
Lokanir
Yfirvöld eru að meta skemmdir sem urðu vegna stormsins; þakplötur og lausamunir fuku, tré og hlaðnir veggir brotnuðu.
El Teide-þjóðgarðurinn verður lokaður næstu daga, til að hægt sé að meta skemmdir og hvort skriður hafi orðið. Grasagarðurinn í La Orotava verður lokaður í viku, á meðan hreinsunarstarf fer fram vegna skemmda á gróðri. Martiánez sundlaugagarðurinn í Puerto de la Cruz er líka lokaður vegna hreinsunarstarfs. Auk þess verða ýmsar opinberar byggingar lokaðar, skólar og þess háttar, líklega fram á miðvikudag.