Golf
Það getur verið mjög freistandi að stinga af frá íslenskri lægð og slaka á í sólinni. Golfvellirnir á Tenerife eru nokkrir og eiga það sameiginlegt að hafa pálmatré, útsýni yfir sjóinn og sól flesta daga. Nokkrir þeirra hafa verið notaðir undir alþjóðleg golfmót og hver og einn býður upp á mismunandi áskoranir. Það fer eftir staðsetningu vallanna hvar minnstu líkurnar á rigningu eru. Veðurfarið á ferðamannasvæðunum á suðvesturhorninu er svipað allt árið og sjaldgæft að það rigni.
Hægt er að velja milli þriggja 27 holu, fjögurra 18 holu og tveggja 9 holu valla. Allir vellirnir eru opnir almenningi og það er boðið upp á kennslu fyrir byrjendur.
Yfirleitt þarf að panta rástíma fyrirfram og oftast er hægt að bóka á netinu. Yfir veturinn þegar mest er að gera borgar sig að bóka tíma með góðum fyrirvara.
Golf Las Américas
Mjög flottur 18 holu völlur við aðalferðamannasvæðið Amerísku ströndina á suðvesturhlutanum. Fyrir utan að það er mjög gaman að spila á honum, þá er útsýni yfir hafið og nágrannaeyjuna La Gomera. Jafnvel byrjendur ættu að ná fugli á 9. holu. Byggður 1998 og mjög vel haldið við. Það er hótel á golfvellinum en líka hægt að velja einn af fjölmörgum gististöðum á Amerísku ströndinni, Adeje eða Los Cristianos. Athugið að hverfið fyrir neðan völlinn (fyrir ofan Veronicas og Sol Hotel) er þar sem mesta skemmtanalífið er en það er rólegra á hinum svæðunum.
Golf Costa Adeje
27 holu völlur við ferðamannasvæðið á Adeje, sem er aðeins vestar en Ameríska ströndin. 9 holu völlurinn Los Lagos er á sama svæði. Völlurinn opnaði 1998 og er mjög vinsæll. Hann er krefjandi og sérstaklega góður fyrir þá sem vilja langskot, þar sem holurnar eru nokkuð langar. Á þessum velli er líka hægt að spila fótgolf með fótbolta og á sérútbúnum 9-18 holu golfvelli. Reglurnar eru þær sömu og í golfi fyrir utan að það þarf ekki kylfu.
Abama Golf
Frábær hönnun og stórbrotið útsýni. Ef þú vilt spila golf á toppi veraldar þá er það einmitt það sem Abama lofar. Hér er haldið árlegt golfmót á vorin. 18 holu völlur, byggður 2005, er 315 metra yfir sjávarmáli og státar af útsýni til nágrannaeyjanna nánast um allan völlinn. Þetta er golfvöllurinn með bleika hótelinu. Einn besti golfvöllur Spánar.
Real Club de Golf
Í bænum Tacoronte á norðurhluta Tenerife er að finna annan elsta golfvöll Spánar, Real Club de Golf de Tenerife, sem opnaði 1932. Stundum kallaður El Peñon. Völlurinn er í um 600 metra hæð yfir sjávarmáli og þaðan er mjög fallegt útsýni.
Frá flugvellinum sem íslensku flugfélögin fljúga til (Tenerife Sur) að Real Club de Golf er um 50 mínútna akstur. Golfvöllurinn er í um korters akstur frá höfuðborginni Santa Cruz. Veðurfar yfir veturinn er svalara en á ferðamannasvæðinu fyrir sunnan. Að meðaltali eru 7-9 rigningardagar í mánuði frá október til mars og hitastigið í kringum 15-18°C.
Buenavista
Fallegur 18 holu völlur við vestasta bæ Tenerife, Buenavista del Norte. Byggður 2003. Þar er stöðuvatn, foss og útsýni yfir hafið og Teno-fjallgarðinn. Ein stærsta áskorunin hér er að láta kúluna ekki enda í sjónum. Í desember og janúar eru að meðaltali 5 rigningardagar í mánuði, sem er það mesta yfir árið, og hitastigið er aðeins lægra en fyrir sunnan.
Los Palos
9 holu völlurinn er auðveldur og hentar því mjög vel byrjendum. Hann er stutt frá ferðamannasvæðinu við Los Cristianos.
Amarilla Golf
18 holu völlur nálægt flugvellinum á suðurhlutanum, nálægt bænum Los Abrigos. Mjög flottur völlur þar sem eldfjallaumhverfið fær að njóta sín. Völlurinn var byggður 1989.
Golf del Sur
27 holu völlur með þremur 9 holu brautum, nálægt flugvellinum á suðurhlutanum. Hann var opnaður 1987 og nokkur PGA mót hafa verið haldin á honum. Hér getur þurft mikla nákvæmni. Fallegt umhverfi og útsýni.