Brimbretti
El Médano
Það er hægt að fara á brimbretti á nokkrum stöðum á Tenerife. Ein besta brimbrettaströndin er klárlega El Médano en þangað koma atvinnumenn til að æfa sig. Ströndin er nokkurra kílómetra löng, með hvítum sandi frá náttúrunnar hendi. Ströndin er ekki langt frá flugvellinum og í um 20 mínútna fjarlægð frá Playa de las Américas. Í El Médano eru hótel af öllum gerðum og líka ódýrt surf hostel með fríu þráðlausu neti og fríum morgunmat.
Hér er hægt að skoða ströndina í vefmyndavél.
Playa de las Américas
Það er góð aðstaða fyrir brimbrettafólk á Amerísku ströndinni, á ströndinni fyrir neðan H10-hótelið og Dive Shop. Á svæðinu eru líka verslanir og skólar sem kenna byrjendum og lengra komnum á bretti. Einn af þeim er Dive Shop sem er verslun með brimbretti og þar er líka boðið upp á kennslu. Hún er rétt fyrir neðan H10-hótelið, nær ströndinni, í götu sem heitir Calle México. Það er líka mikið um að vera í þeirri götu á kvöldin því þar eru pöbbar af öllum gerðum og skemmtistaðir rétt hjá (á Veronicas-svæðinu).
Kennsla – Ameríska ströndin
Hér er hægt að fá einkatíma eða hóptíma hjá reynslumiklum leiðbeinendum:
Puerto de la Cruz
Falleg borg á norðurhluta Tenerife. Það er brettasvæði á ströndinni við miðbæinn, fyrir innan Lago Martiánez og H10 hótelið. Það eru tvær brimbrettaverslanir rétt hjá. Yfir háveturinn er aðeins svalara fyrir norðan en sunnan en það getur verið svipað og íslenskt sumar.