Jólin á Tenerife

Sífellt fleiri kjósa að verja jólunum í sól og sumaryl fjarri stressinu á Íslandi, enda er fátt jafn endurnærandi og frí á paradísareyjunni Tenerife. Meðalhiti er um 19-20°C í desember og janúar. Það er nógu hlýtt til að fara í sólbað en samt gæti verið þörf á jakka eða peysu á kvöldin. Líklega verða um 1% Íslendinga á Tenerife þessi jól eins og síðustu ár. Nema við sláum nýtt met í ár.

Ef fólk langar til að borða á einhverjum sérstökum stað um jólin eða áramótin borgar sig auðvitað að byrja snemma að plana jólafríið. Enda er ekkert að því að byrja að undirbúa jólin í september eða október!

Út að borða á aðfangadagskvöld?

Flestir veitingastaðir á Tenerife eru opnir um jól og áramót. Það borgar sig þó alltaf að panta borð með góðum fyrirvara þegar planið er að fara út að borða á hátíðisdögum, hvort sem það er fyrir tvær manneskjur eða stærri hópa. Það á sérstaklega við um 24. og 25. desember, og áramótin, til að lenda ekki í vandræðum. Til dæmis er mjög einfalt að panta borð í gegnum síður veitingastaða á Tripadvisor (sjá neðar á síðunni). Svo er líka hægt að hafa samband beint við veitingastaðina. Ef þið gistið á hóteli og ætlið ykkur að borða á veitingastað hótelsins yfir hátíðarnar, er nóg að hafa samband við hótelið til að panta borð.

Eldað „heima“

Sumir kjósa að elda sinn eigin jólamat í fríinu í stað þess að fara út að borða. Það er mjög gott úrval af mat og drykk í matvörubúðum. Ef þið getið til dæmis ekki hugsað ykkur jól án hamborgarhryggs þá getið þið annað hvort tekið hann með ykkur út eða kíkt í kjötborðið í Mercadona, HiperDino eða annarri matvörubúð. Áður en farið er í búðina (eða út að borða) er gott að vista í símann spænsku heitin á því sem ykkur langar í. Hér er orðalisti yfir það helsta sem Íslendingar borða í hátíðarmatinn:

Hamborgarhryggur = lomo de cerdo ahumado – Nautakjöt = filete de ternera, entrecot de ternera – Hnetusteik = asado de frutos secos – Vegan kjöt = carne vegetariana, (carne vegana eða asado vegetariano) – Kalkúnn = pavo – Kjúklingur = pollo – Perluhænsn = gallina de Guinea

Pálmatré með jólaseríum
(Mynd Hótel Bótanico)

Kanareysk jól

Aðfangadagskvöld er Nochebuena á spænsku og jóladagur er día de Navidad. Aðal jólahátíð Tenerifebúa er 6. janúar (þrettándinn) og þá fá krakkarnir pakka. Íbúar Kanaríeyja eru kaþólskrar trúar eins og meirihluti Spánverja og 6. janúar er dagur vitringanna (Día de los Reyes Magos). Strax á eftir hefjast síðan útsölurnar.

Hefðbundinn jólamatur á Spáni er lambakjöt og eftirmaturinn er turrón; núggat-konfekt sem er meðal annars búið til úr sírópi og hnetum. Það er í boði á mörgum veitingastöðum. Turrón er líka hægt að kaupa í alls konar útgáfum í matvöruverslunum.

Áramótin

Það er líf og fjör á eynni um áramótin. Veitingastaðir, skemmtistaðir og pöbbar eru opnir og það verða flugeldasýningar á fjölmennustu stöðunum. Mörg hótel eru líka með sína eigin dagskrá. En ef þið viljið vera fjarri stuðinu í bænum er hægt að hafa sína einkaveislu úti í garði eða á svölunum, enda veðrið yfirleitt of gott til að hanga inni.

Karnival gríma

Jólafrí til Tenerife

Á meðan sumir vilja slaka á við sundlaugarbakkann eða á ströndinni, vilja aðrir njóta þess að ganga um höfuðborgina Santa Cruz eða gamla bæinn í Los Cristianos. Það er mjög gaman að upplifa jól í öðru landi. Jólaskreytingar geta virkað framandi meðan annað er mjög svipað og heima. En ef bæjarrölt er ekki næg áskorun fyrir ykkur, er um að gera að taka gönguskóna með og skella sér í létta (eða erfiða) fjallgöngu. Eða leigja hjól og hjóla eftir strandlengjunni eða í kyrrðinni í El Teide-þjóðgarðinum. Svo er alltaf góð hugmynd að prófa eitthvað nýtt, hvort sem það er kennslustund í golfi eða að prófa sækött eða klettaklifur.

Ef þið eruð hrædd um að fá heimþrá um jólin þá getur verið gaman að hitta samlanda sína. Ýmislegt verður um að vera á Íslendingabarnum yfir jólin og áramótin. Annar íslenskur staður á Tenerife er Bambú bar & bistro.

Ef ykkur finnst ekki nóg að lesa um jólin á Tenerife og viljið upplifa þau sjálf, þá er best að demba sér í að skoða flug og gistingu.

Rennibrautir í vatnsrennibrautagarðinum Siam Park
Jólastemning í Siam Park