Jólafrí á Tene- Hvað er hægt að gera?

Jólafrí á Tene- Hvað er hægt að gera?

Á meðan sumir vilja slaka á við sundlaugarbakkann eða á ströndinni, vilja aðrir njóta þess að skoða sig um. Við hvetjum fólk til að skoða sig um og fara út fyrir ferðamannasvæðið á suðurhlutanum. Það þarf ekki að keyra langt til að komast í ekta kanareyska menningu og sjá aðra hlið á Tenerife.

Skoðunarferðir sem við mælum með

Við mælum sérstaklega með að ganga um miðbæ Santa Cruz eða skoða gamla bæinn í La Orotava.

La Orotava er í hlíðinni fyrir ofan borgina Puerto de la Cruz, á Norður-Tenerife, sem við mælum líka með að skoða. Sérstaklega göngugöturnar við San Telmo og Lago Martianez, og Plaza del Charco-torgið. Dýragarðurinn Loro Parque er svo rétt við miðbæ Puerto de la Cruz.

Canarian town La Orotava, with cobblestone streets and old yellow houses
 
Göngugatan við Lago Martiánez í Puerto de la Cruz

Bæjarrölt

En ef þið viljið halda ykkur við suðurhlutann þá er líka margt að sjá í gamla bænum í Los Cristianos. Svo er líka gaman að heimsækja La Caleta sem er rétt við Adeje. Eða fara aðeins lengra vestur og skoða Los Gigantes-klettana frá bænum Puerto de Santiago.

Skammt frá Los Cristianos er strandbærinn El Médano. Þar eru kaffihús og veitingastaðir, löng strönd og meðal annars hægt að fá kennslu á brimbretti.

Eða skoða fallegu basilíkuna í Candelaria, sem er stutt frá höfuðborginni Santa Cruz. Í Candelaria er meðal annars lítil kryddbúð, ásamt fleiri smáverslunum, í götu sem liggur út frá torginu fyrir framan basilíkuna.

Basilíkan í Candelaria er sögufræg

Söfn og afþreying

Á Tenerife eru fjölmörg söfn fyrir börn og fólk á öllum aldri. Mörg þeirra eru í Santa Cruz og Puerto de la Cruz. Hér er nánar farið yfir söfnin. Á Tenerife er einnig mjög fjölbreytt afþreying í boði, bæði fyrir börn og fullorðna.

Einn af hjólabrettagörðum Tenerife

Útivist eða bíltúr

Það er mjög gaman að upplifa jól í öðru landi. Jólaskreytingar geta virkað framandi, meðan annað er mjög svipað og heima. Ef bæjarrölt er ekki næg áskorun fyrir ykkur, er um að gera að taka gönguskóna með og skella sér í létta (eða erfiða) fjallgöngu. Eða leigja hjól og hjóla eftir strandlengjunni eða í kyrrðinni í El Teide-þjóðgarðinum.

Það er hægt að fara í skoðunarferðir á vínekrur

Matarferðir, stjörnuskoðun og siglingar

Það er hægt að fara í matarferðir og vínsmökkun á vínekru. Eða heimsækja stjörnuskoðunarstöðina efst í El Teide-þjóðgarðinum. Síðan er alltaf góð hugmynd að prófa eitthvað nýtt, hvort sem það er kennslustund í golfi eða að prófa sækött eða klettaklifur. Svo er alltaf vinsælt að leigja bát og skella sér í siglingu um eyjuna.

Það verður líka sérstök áramótadagskrá hjá Íslendingabarnum Nostalgía. Þau ætla meðal annars að sýna áramótaskaupið.

Það er gott að hlaða batteríin á Tenerife eftir jólatörnina