Airbnb
Ein öruggasta leiðin til að leigja íbúð á Tenerife er í gegnum Airbnb. Það er vegna þess að Airbnb ábyrgist bæði íbúðir og greiðslur. Það þýðir einfaldlega að ef það koma upp mál þar sem íbúð er ekki eins og var lofað í lýsingu, eða íbúðin er hreinlega ekki til staðar, mun Airbnb endurgreiða leiguverðið. Athugið að öll samskipti og greiðslur verða að vera gegnum Airbnb-kerfið. Ef leigusali fer fram á annað, eins og til dæmis að senda tölvupóst á sér netfang eða að greiða með millifærslu, tilkynnið það þá strax til Airbnb og leitið að annarri íbúð.
Það eru fjölmargir Airbnb-gististaðir í boði um alla eyjuna. Allt frá herbergjum upp í einbýlishús. Hér geturðu skoðað gististaði, upplifanir, veitingastaði og fleira á Tenerife. Airbnb-kerfið er á íslensku, sem og hjálparsíða og samskipti við Airbnb. En lýsingar á upplifunum, námskeiðum og fleiru eru á ensku og/eða spænsku.
Airbnb aðgangur
Ertu ekki með aðgang að Airbnb en langar að prófa? Þá geturðu smellt hér til að fara á innskráningarsíðuna.
Athugið að þegar leitað er að íbúðum á Tenerife þá er eins og allar íbúðirnar séu í höfuðborginni Santa Cruz, en það er ekki þannig. Þetta er einfaldlega eins og hluti af nafni svæðisins innan Spánar, þ.e. Santa Cruz de Tenerife. Ef þið eruð ekki viss þá er best að setja nafn bæjarins eða allt heimilisfangið inn á Google Maps, til að sjá rétta staðsetningu.
Hvar er best að vera á Tenerife?
Staðsetning og verð fara eftir því hvort fólk vill vera á aðal ferðamannasvæðinu (Arona og Adeje) eða fyrir utan það. Íbúðir við Amerísku ströndina, Fanabe og Los Cristianos eru oftast dýrari en annars staðar á eyjunni. Almennt eru íbúðir á ferðamannasvæðinu við sjóinn dýrari en íbúðir ofan við hraðbrautina. En það getur verið öfugt í öðrum bæjum, þ.e. dýrara hærra uppi þar sem er svalara.
Fyrir fólk sem vill vera nálægt ferðamannasvæðinu en samt aðeins fyrir utan, þá eru margir hrifnir af bæjunum Puerto de Santiago, sem er á móti Los Gigantes-klettunum, og El Médano.
Ef þið viljið upplifa spænska menningu er líka hægt að vera í höfuðborginni Santa Cruz. Eða bæjunum Puerto de la Cruz og La Laguna. Það eru fjölmargir fallegir staðir sem koma til greina og um að gera að skoða síðuna vel til að fá fleiri hugmyndir.
Hvernig er best að velja íbúð?
Það er mismunandi hvað er innifalið í leigu. Það er tekið fram í hverri skráningu. Airbnb-íbúðir eru í flestum tilfellum með nettengingu og sjónvarpi. Það getur verið betri kostur að leigja Airbnb-íbúð heldur en venjulega íbúð ef þið eruð ekki viss um hvaða svæði þið viljið vera á. Og líka ef þið viljið prófa að gista á nokkrum stöðum en ekki vera á sama stað alla ferðina. Þannig er hægt að kynnast eyjunni betur og finna sinn uppáhaldsstað.
Á Spáni er gefinn upp herbergjafjöldi miðað við fjölda svefnherbergja, ólíkt Íslandi þar sem stofan er talin með. Ef þið eruð að leita að íbúð með 1 svefnherbergi þá er það einfaldlega 1 habitación (skammstafað hab) eða 1 dormitorio. Eldavélar eru annað hvort rafmagns eða gas.
Nokkur orð sem lærast fljótt þegar þið farið að leita að íbúðum á Tenerife og Spáni:
- Leiga = alquilar/alquiler
- Baðherbergi = baños
- Eða meira = o más
- Svalir = balcón
- Verð til-frá = precio desde-hasta