Aðvörun vegna Veronicas-svæðisins
Veronicas strip, eins og það er oftast kallað, er svæðið í kringum staðina með C.C. Veronicas-skiltin á þakinu. Fyrir örfáum árum (2019) voru mörg dæmi um að fólki hafi verið byrlað lyf í þeim tilgangi að leiða fólk burt og ræna það. Langflestir gestir hafa sem betur fer ekki orðið varir við neitt en þetta er skelfileg lífsreynsla fyrir þá sem hafa lent í þessu. Lögreglan hefur gert rassíu á svæðinu og þarna eru margir óeinkennisklæddir lögreglumenn á vakt, bæði dag og nótt. Atvikin sem um ræðir hafa gerst um hábjartan dag og seint um kvöld, þegar næturlífið er í fullum gangi. Þetta tengist ekki einstökum stöðum og þær/þeir sem byrla fyrir fólki hafa meðal annars gert það með því að spreyja framan í fórnarlambið. Eins og alltaf á svona stöðum margborgar sig fyrir fólk að halda hópinn og vera ekki eitt á ferð.
Góð regla er að vera ekki með mikið reiðufé á sér og ekki nema 1 greiðslukort, helst með lágri inneign.
Lyfið sem um ræðir kallast burundanga eða „Devil’s Breath” og kemur frá Suður-Ameríku. Notkun þess hefur verið að aukast í Evrópu og Bandaríkjunum.